145. löggjafarþing — 59. fundur,  19. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[12:40]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti minni hluta fjárlaganefndar. Minni hlutinn gagnrýnir skattkerfisbreytingar sem leiða til lægri tekna ríkissjóðs. Tekjuskattsþrepum er fækkað úr þremur í tvö og minni hlutinn er því ekki samþykkur. Þrepaskipt tekjuskattskerfi stuðlar að auknum jöfnuði í samfélaginu og það er að mati minni hlutans mjög mikilvægt. Þá eru mörg einkenni þenslu í hagkerfinu og því er óráðlegt að lækka tekjuskatt á þessum tímapunkti. Ríkissjóður verður auk þess af 5,5 milljörðum kr. á næsta ári vegna þessara breytinga. Þá hafa stjórnvöld lækkað veiðigjöld frá því að þau tóku við völdum, afnumið stóreignaskatt og orkuskatt sem stóriðjan greiðir að mestu. Með fjárlögum 2016 lækkar afkomubati ríkissjóðs á milli ára í fyrsta skipti frá hruni, að frádregnu stöðugleikaframlagi sem líta verður fram hjá að þessu leyti. Það sýnir glöggt slaka stjórnun ríkisfjármála.

Minni hlutinn telur að bætur almannatrygginga eigi að fylgja hækkun lágmarkslauna, nú þegar kjarabætur koma sérstaklega til þeirra sem eru með lægri laun. Telja verður að 69. gr. laga um almannatryggingar hafi verið sett til að verja þá hópa fyrir kjaraskerðingu sem fá greiddan lífeyri en ekki til að halda þeim á allra lægstu laununum. Nú, þegar lágmarkslaun hækka hlutfallslega meira en önnur laun í landinu, er sanngirniskrafa að bætur almannatrygginga fylgi þeirri þróun. Jafnframt hefur minni hlutinn lagt til að aldraðir og öryrkjar fái kjör sín bætt afturvirkt frá 1. maí á árinu 2015, líkt og kjarasamningar á almennum markaði gera ráð fyrir. Fordæmi er fyrir því með kjarasamningum árið 2011 en þá kom hækkun um mitt árið en ekki beðið með hana til áramóta eins og nú er gert. Lægstu laun taka hækkunum að nýju 1. maí 2016 og kjör aldraðra og öryrkja eiga einnig að taka mið af þeirri hækkun og gera þarf ráð fyrir henni í fjárlögum. Minni hlutinn leggur fram breytingartillögu í þá veru.

Ljóst er að staða Landspítalans er mjög þröng og minni hlutinn hefur áhyggjur af henni og slæmri stöðu víðar í heilbrigðiskerfinu. Áætlað er að þjónustuþörf á Landspítalanum aukist um 1,7% árlega vegna fjölgunar sjúklinga. Álagið á sjúkrahúsið eykst því ár frá ári. Ekki er gert ráð fyrir fjölgun sjúklinga í fjárveitingum til sjúkrahússins og jafngildir það niðurskurðarkröfu um 1 milljarð kr. á árinu 2016.

Enn eru óleystar deilur milli fjármála- og efnahagsráðuneytisins og velferðarráðuneytisins um útreikning á nýgerðum vaktasamningum lækna. Þar munar 400 millj. kr. Landspítalanum í óhag. Minni hlutinn gagnrýnir harðlega að ekki hafi fundist lausn á þessari deilu fyrir afgreiðslu fjárlaga.

Við 2. umr. fjárlaga felldi meiri hlutinn tillögur minni hlutans um 1,4 milljarða kr. til viðhalds á húsnæði Landspítalans. Nú leggur meiri hlutinn fram breytingartillögu í viðhald upp á 250 millj. kr. Þótt vissulega sé jákvætt að hlustað sé á tillögur og málflutning minni hlutans er fjárhæðin allt of lág. Ótækt er að rekstrarfé Landspítalans renni í viðhald eins og verið hefur og mjög brýnt er að áætlun um byggingu nýs Landspítala verði lögð fram sem allra fyrst.

Minni hlutinn lýsir einnig yfir áhyggjum af því að sjúkrahótelið við Ármúla nýtist ekki sjúklingum sem skyldi. Þörf er á endurskoðun á samningnum á milli hótelsins og Sjúkratrygginga þannig að hótelið nýtist í raun sem úrræði sem Landspítalinn getur treyst á.

Í breytingartillögum meiri hluta fjárlaganefndar er brugðist við kröfum minni hluta Alþingis um að bæta stöðu Landspítalans, en ekki er nærri nóg að gert. Það að sjúklingar geti ekki útskrifast af spítalanum vegna þess að þeir hafi ekki í önnur hús að venda hefur verið kallað fráflæðisvandi spítalans. Fjármagn til að mæta þeim vanda mun vissulega bæta stöðuna en er fjarri því að leysa þann fjölþætta vanda sem spítalinn glímir við. Auk þess er sá milljarður sem meiri hlutinn leggur til ekki til Landspítalans heldur til öldrunarþjónustu almennt. Eftir stendur vandi Landspítalans óleystur og sjálfstæð niðurskurðarkrafa sett á spítalann vegna fjölgunar sjúklinga.

Minni hlutinn er mótfallinn frekari lækkun útvarpsgjalds. Það er mat stjórnar og stjórnenda RÚV að lengra verði ekki gengið í hagræðingu miðað við núverandi þjónustu enda hafi gríðarlega mikið verið hagrætt á síðustu árum. Ljóst er að lækkun gjaldsins kallar á verulegan niðurskurð og breytingu á hlutverki stofnunarinnar. Minni hlutinn leggur til að útvarpsgjaldið árið 2016 verði 18.370 kr. en það er óbreytt útvarpsgjald frá 2015 að viðbættum verðbótum.

Meiri hlutinn gerir tillögu um 175 millj. kr. tímabundið framlag til að efla framleiðslu á leiknu íslensku efni sem sjálfstæðir kvikmyndagerðarmenn framleiða. Með samþykkt þeirrar tillögu er gripið inn í þjónustusamning við Ríkisútvarpið og Alþingi tekur sér í raun dagskrárvald.

Allar áætlanir um rekstur RÚV hafa miðast við fyrirheit ráðherra frá því í apríl sl. um óbreytt útvarpsgjald. Nú liggur fyrir að fyrirheitin nutu ekki stuðnings stjórnarmeirihlutans og að ráðherra hafi því lofað upp í ermina á sér. Áætlanir þarf því að vinna að nýju miðað við lægra útvarpsgjald. Á árinu 2015 er kostnaður við nýja kjarasamninga 250 millj. kr. og við þeim aukna kostnaði þarf að bregðast auk niðurskurðar um 400 millj. kr. á árinu 2016. Þessi staða RÚV breytist ekki við tillögu meiri hlutans. Minni hlutinn gagnrýnir harðlega atlögu meiri hlutans að Ríkisútvarpinu og ítrekar mikilvægi þess að á Íslandi sé rekinn öflugur almannamiðill með skýrt eignarhald þjóðarinnar sem er jafnframt óháður hagsmunaaðilum. Þá er með ólíkindum að ráðherra og Alþingi komi Ríkisútvarpinu í þessa stöðu með því að láta málið reka á reiðanum allt fram til síðasta dags þings á árinu.

Tekist hefur samkomulag milli ríkis og sveitarfélaga sem felur í sér endanlega niðurstöðu um fjármögnun þjónustu sveitarfélaga við fatlað fólk samkvæmt lögum um málaflokkinn. Skýrsla verkefnisstjórnar um faglegt og fjárhagslegt mat á yfirfærslu málaflokksins til sveitarfélaganna liggur fyrir. Samkomulag ríkis og sveitarfélaga um fjármögnun þjónustu sveitarfélaganna við fatlað fólk er tvíþætt. Annars vegar verður tímabundin 0,04% hækkun útsvarshlutfalls sveitarfélaga sem ákveðin var á árinu 2014 lögfest sem hluti af hámarksútsvari sveitarfélaganna og þar með fer 1,24% útsvarsins til málaflokksins. Hins vegar er kveðið á um hækkun framlaga í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga sem hlutfall af skatttekjum ríkissjóðs. Áætlað er að þessar breytingar leiði til þess að framlög til þjónustu við fatlað fólk af hálfu sveitarfélaganna aukist um allt að 1,5 milljarða kr. á ári. Minni hlutinn gagnrýnir að við skiptingu upphæðarinnar á milli sveitarfélaga fari aðeins 80% eftir mati á stuðningsþörf en 20% eftir útsvari sveitarfélaga. Það þýðir að sveitarfélög sem standa verr fá minna í sinn hlut. Ekki hefur verið gengið frá samkomulagi um notendastýrða persónulega aðstoð, skammstöfuð NPA, við fatlað fólk. Það þjónustuform eykur möguleika notenda á að lifa sjálfstæðu lífi. Það er mat minni hlutans að þar sem þessi þjónusta hentar eigi hún að vera jafn rétthár valkostur við aðra þjónustu. Minni hlutinn gagnrýnir harðlega að þeir 55 einstaklingar sem eru með samninga um NPA búi nú við óvissu um framtíð sína og hvetur til þess að þeirri vinnu sem nú stendur yfir um NPA ljúki sem fyrst.

Slitabú þriggja stóru bankanna hafa nú fengið frumvarp að nauðasamningum samþykkt af kröfuhöfum en þau verða síðan lögð fyrir héraðsdóm til staðfestingar. Að loknum áfrýjunarfresti munu þau ganga frá samningum um stöðugleikaframlag og mun Seðlabanki Íslands veita því viðtöku fyrir hönd ríkissjóðs. Áformað er að umsýsla með öðrum framlögum en reiðufé verði í sérstöku félagi sem starfrækt verður á vegum bankans. Taldar eru meiri en minni líkur á að minni slitabúin fimm sem falla undir skattskyldusvið stöðugleikaskatts ljúki slitum með greiðslu stöðugleikaskatts.

Stöðugleikaframlögin verða greidd með lausu fé, framsalseignum, afkomuskiptasamningum og fjársópseignum. Áætlað er að tekjur af stöðugleikaframlögunum sem afhent verða ríkissjóði geti numið 384,3 milljörðum kr. Til viðbótar er talið að stöðugleikaframlögin geti aukið endurheimtur eignasafns Seðlabanka Íslands um 81 milljarð kr. Einnig munu falla til um 30 milljarða kr. skattgreiðslur slitabúanna, samtals 495 milljarðar kr. Á árinu 2016 munu 41,8 milljarðar kr. falla til á greiðslugrunni en mikil óvissa á milli greiðslugrunns og rekstrargrunns felst meðal annars í því hvenær Arion banki og Íslandsbanki verða seldir.

Tekjum af stöðugleikaframlagi árið 2016 verður varið til að mæta lækkun tekna ríkissjóðs af sérstökum skatti á fjármálafyrirtæki og greiða upp skuldabréf sem ríkissjóður gaf út til Seðlabanka Íslands haustið 2008 til að endurfjármagna bankann. Að öðru leyti verða stöðugleikaframlögin í vörslu félags á vegum Seðlabanka Íslands og verður ráðstöfun þeirra í framtíðinni að samrýmast markmiðum um efnahagslegan og fjármálalegan stöðugleika. Þannig er gert ráð fyrir að þessum fjármunum verði varið til lækkunar á skuldum ríkissjóðs eftir því sem tækifæri gefast.

Hv. þm. Ásta Guðrún Helgadóttir er áheyrnarfulltrúi í nefndinni og er samþykk álitinu. Undir það skrifa ásamt þeirri sem hér stendur hv. þingmenn Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir og Brynhildur Pétursdóttir.

Forseti. Ég vil aðeins bæta við út af ræðu formanns fjárlaganefndar áðan þar sem hún fullyrti að með tillögu meiri hlutans um 175 millj. kr. tímabundið framlag til Ríkisútvarpsins ohf. til eflingar innlendri dagskrárgerð væri ekki tilraun meiri hluta fjárlaganefndar til að grípa inn í dagskrárvaldið eða segja til um hvernig ætti að skera niður í Ríkisútvarpinu vegna lægra útvarpsgjalds. Allar áætlanir hafa miðast við fyrirheit hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra frá því fyrr á þessu ári um að útvarpsgjaldið yrði óbreytt. Þá þarf að gera nýjar áætlanir. Það hefur komið fram á fundum fjárlaganefndar að auðvitað muni það bitna á innlendu efni þar sem það er dýrast og það þarf að búa til nýjar áætlanir.

Í nefndarálitinu frá meiri hluta fjárlaganefndar stendur, með leyfi forseta:

„Á yfirstandandi ári er gert ráð fyrir að keypt verði efni frá þeim“ — þ.e. kvikmyndagerðarmönnum úti í bæ, sem sagt ekki innanhússefni — „fyrir 450 millj. kr. og gert er ráð fyrir að sú fjárhæð verði 625 millj. kr. á næsta ári.“

Ég spurði hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur hvort þarna væri verið að segja til um hvernig stjórnendur Ríkisútvarpsins ættu að skera niður og búa til nýja áætlun. Eftir stendur spurningin ósvöruð. Eins og ég skil nefndarálit meiri hlutans er hann að segja við stjórnendur Ríkisútvarpsins: Þið eigið ekki að skera þessar 450 milljónir niður, heldur eigið þið að bæta þessum 175 við og ekki hreyfa þennan lið.

Ef það eru ekki skilaboðin gætu stjórnendur bara ákveðið að skera þessar 450 milljónir niður og látið 175 þá bara standa.

Ég get ekki með nokkru móti skilið þessa tillögu öðruvísi en að Alþingi sé með þessum hætti að ráðast inn í dagskrárvaldið, inn í þjónustusamninginn, og segja stjórnendum Ríkisútvarpsins hvernig þeir eigi að bregðast við lægra útvarpsgjaldi þegar kemur að þessum lið. Ég get ómögulega skilið þetta öðruvísi. Verði þessi tillaga samþykkt er Alþingi um leið að taka sér dagskrárvald Ríkisútvarpsins.