145. löggjafarþing — 59. fundur,  19. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[12:56]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Fyrst spyr hv. þingmaður út í auðlegðarskattinn og þau orð mín þegar ég var fjármálaráðherra á sínum tíma að ég vildi ekki að hann væri í því formi áfram. Sem fjármálaráðherra rakst ég auðvitað á tæknilega galla á þessum skatti og sjálf er ég hrifnari af skatti af tekjum og svo skatti af tekjum sem eignirnar skapa en skatti af eignum. Hins vegar hefði ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur aldrei nokkurn tímann látið það gerast að leggja niður að fullu og öllu auðlegðarskatt en sjá á sama tíma til þess að aldraðir og öryrkjar væru verr settir en fólk með lægstu tekjur á vinnumarkaði. Það hefði sú ríkisstjórn aldrei gert en það er þessi ríkisstjórn að gera.

Við í minni hlutanum tökum fram í byrjun okkar nefndarálits að við gagnrýnum hvernig stjórnarmeirihlutinn fer með tekjur ríkisins, lækkar tekjuskatt með því að afnema jöfnunarhlutverk tekjuskattskerfisins, lækkaði líka veiðigjöld á tímum þegar útgerðin hafði aldrei skilað meiri arði og endurnýjar núna ekki auðlegðarskattinn. Ef stjórnarmeirihlutinn metur stöðu ríkisfjármála svo bága að það verði að skera niður á Landspítalanum, verði að þrengja að Ríkisútvarpinu og halda öldruðum og öryrkjum á tekjum undir lágmarkslaunum hefði hæstv. ríkisstjórn ekki átt (Forseti hringir.) að afnema auðlegðarskattinn. Þar voru menn inni á milli sem sannarlega höfðu efni á að greiða þennan skatt, það hefði mátt sníða tæknilega galla af honum en láta hann standa frekar en að hrifsa nokkra aura af öldruðum og öryrkjum.