145. löggjafarþing — 60. fundur,  19. des. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[18:28]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég rita undir þetta álit af því að ég styð það að þær breytingar verði gerðar sem ríki og sveitarfélög hafa núna náð saman um til að leysa þá stöðu sem hefur verið uppi í málefnum fatlaðra. Eins og kunnugt er hafa ríki og sveitarfélög setið við samningaborðið undanfarna mánuði til að reyna að ná samkomulagi til að hægt sé að halda áfram í kjölfar þess að þetta verkefni var flutt yfir til sveitarfélaganna fyrir nokkrum árum. Núna hefur farið fram endurskoðun á því hvernig það hefur gengið og hver kostnaðurinn hefur verið. Ég styð það að sjálfsögðu þegar þessi lending hefur náðst.

Síðan vil ég aðeins ræða það sem hv. framsögumaður Willum Þór Þórsson fór yfir með samsköttunarákvæðin. Ég fagna því að meiri hluti nefndarinnar hafi ákveðið að draga til baka þá tillögu sem lá hér fyrir við 2. umr. og ákveðið að skoða málið betur. Það liggur fyrir að spurningarnar um ólík áhrif á kynin komu í raun ekki fram fyrr en við 2. umr. málsins. Ég vil bara segja að mér finnst það afar málefnalegt hjá meiri hluta nefndarinnar að hlýða á þau sjónarmið sem komu fram fyrir nefndinni sem benti til þess að sú breytingartillaga mundi hafa mjög mismunandi áhrif á kynin í ljósi þess að í 75% sambanda eru karlar með hærri laun en konur. Þar af leiðandi geta svona ákvæði haft mjög ólík áhrif á kynin. Þar breytir engu persónuleg reynsla hvers og eins, hvernig þeirra hjónaböndum er háttað, þarna skiptir mestu máli að nefndarmenn horfi fyrst og fremst á fyrirliggjandi gögn.

Ég fagna líka þeirri hvatningu sem hér kemur fram um að ráðherra beiti sér fyrir því að skoðaðar verði fyrirliggjandi heimildir samsköttunar sem nefndin leggur til að fái að halda sér. Sú var ekki raunin í frumvarpi ráðherra, en nefndin leggur til að þessi heimild fái að halda sér en tíminn verði notaður þar til þrepum verður fækkað til að skoða ólík áhrif samsköttunar á kynin en líka út frá almennu jafnræði í skattamálum. Ég treysti því eftir þá ágætu umræðu sem átti sér stað í nefndinni að við munum þrýsta á að þetta verði skoðað. Ef okkur er einhver alvara með að vera hér með kynjaða fjárlagagerð og kynjaða hagstjórn þarf að sjálfsögðu að skoða, ekki bara ríkisútgjöldin, þau þarf að skoða, heldur líka hvernig skattkerfið virkar á ólíkan hátt fyrir kynin.

Fyrirvari minn snýst fyrst og fremst um að mér finnst mjög mikilvægt að þessi úttekt fari fram en líka að í lok álitsins stendur að nefndin leggi til að frumvarpið verði samþykkt með þessum breytingum. Ég er samþykk breytingunum en hins vegar ekki frumvarpinu í heild. Ég gerði auðvitað ítarlega grein fyrir því í ræðum mínum við 2. umr. því að ég er ósammála í grundvallaratriðum þeirri skattstefnu sem ríkisstjórnin stendur fyrir. Það er auðvitað sú skattstefna sem ég hef rætt ítarlega sem ég tel að skili ekki þeim tekjujöfnunaráhrifum sem ég vil að okkar skattkerfi sé nýtt til, þar með talið sérstaklega það sem er boðað í þessu frumvarpi, fyrir utan allar fyrri breytingar um að framlengja ekki auðlegðarskatt, framlengja ekki orkuskatt, hækka virðisaukaskatt á matvæli og fara svo í þá vegferð sem hér er lögð upp og á að taka tvö ár, að fækka þrepum í þrepaskipta skattkerfinu. Þessu er ég algjörlega ósammála þannig að ég tek fram að þó að ég styðji þessar breytingar mun ég ekki styðja frumvarpið í heild sinni.