145. löggjafarþing — 63. fundur,  19. jan. 2016.

almenn hegningarlög.

401. mál
[15:03]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið og það að hún ítreki að þetta frumvarp eigi að ná til allra kvenna. Ég efa svo sannarlega ekki að það sé markmiðið og að auðvitað eigi það að vera þannig.

Mig langar að endurtaka það sem ég sagði að ég held að það þurfi að hugsa um framkvæmdina á rannsóknum til þess að svo verði í raun. Ég vil þess vegna beina því til hv. nefndarinnar sem fær málið til skoðunar að hafa þann vinkil með inni þegar hún er að skoða málið að það þurfi að styrkja það til þess að fatlaðar konur geti leitað réttar síns og til þess að hin almenna löggjöf nái utan um þær líka. Það þarf að hafa í huga.

Mig langar líka að benda á að í þessu frumvarpi er verið að bæta við ákvæðum sem varða lög nr. 25/1975, um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir. Þar þarf líka að hugsa sérstaklega um hagsmuni fatlaðs fólks, því að líkt og kom fram í svari við fyrirspurn frá hv. þm. Páli Val Björnssyni um ófrjósemisaðgerðir, ég held hún hafi verið lögð fram í nóvember á síðasta ári, þá hafa á síðastliðnum árum verið gerðar nokkrar ófrjósemisaðgerðir á fötluðum börnum, það voru gerðar aðgerðir á átta stúlkum og einum pilti á aldrinum 15–18 ára. Við þurfum líka að hugsa vel um það hvernig þeirri löggjöf er háttað og hvernig ákvarðanatökunni á ófrjósemisaðgerðum er háttað til þess að kerfið, ef svo má segja, geti ekki brotið á fötluðum börnum.

Þetta eru þau atriði sem mig langaði að yrði haldið til haga inn í þessa umræðu.