145. löggjafarþing — 64. fundur,  20. jan. 2016.

staða hjúkrunarheimila í landinu.

[16:25]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þá umræðu sem hefur átt sér stað. Hún er að vísu mjög misjöfn að gæðum. Sumir koma upp með palladóma og yfirlýsingar sem greiða í raun ekkert úr þeirri stöðu sem við er að glíma og reyna að koma einhverju fram sem á sér kannski ekki stoð. Það skilar okkur ekki nokkrum sköpuðum hlut. Ég fagna því hvernig hv. málshefjandi nálgast umræðuna. Það er þó lausnamiðað þar inni. Það er ekkert í þessari stöðu sem leysir úr henni sisvona og það strax. Ég ætla að minna á að það eru rétt rúmir 30 dagar frá því að Alþingi Íslendinga afgreiddi fjárlög ársins við 3. umr. og það var engin tillaga þar inni við lokaafgreiðslu fjárlaga um aukna fjármuni til þessa málaflokks. Svo kemur þetta upp.

Höfuðvandinn í þessu er sá að það vantar stefnumörkun til lengri tíma. Það er hárrétt sem kom fram hjá hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni áðan, okkur skortir lengri tíma sýn. Að henni er unnið. Þingflokkar fá fljótlega boð, ef þeir hafa ekki þegar fengið það, um að koma að þeirri vinnu sem nú er í gangi á vegum ráðuneytis míns við langtímastefnumörkun. Ég óska eftir því að þingflokkar taki fullan þátt í þeirri vinnu.

Varðandi bráðavandann og það að rekstraraðilar sitji við sama borð er vandamálið, viðfangsefnið, jafn fjölbreytt og rekstraraðilarnir eru margir. Rekstraraðilar hjúkrunarheimila eru 43–44. Samkvæmt skýrslu Ríkisendurskoðunar voru 13 hjúkrunarheimilanna rekin með afgangi árið 2014. Ég veit að sumir rekstraraðilar hafa ágæta stöðu, þ.e. þeim gengur ágætlega að vinna úr því sem þeir fá, meðan aðrir eru í bullandi vandræðum, en þeir sem eru í vandræðum eru jafnvel að yfirborga starfsfólk á milli heimila. Það er ekkert einfalt að takast á við þetta. Við þurfum betra módel sem við fáum ekki öðruvísi en með greinargóðum þjónustusamningum við rekstraraðila. Að þeim er unnið og fyrr en við sjáum einhverja (Forseti hringir.) útkomu á þeim held ég ekki að við munum nálgast neinn samningsflöt.

Varðandi stóra málið sem hv. þingmaður (Forseti hringir.) nefndi, lífeyrisskuldbindingar við rekstraraðila þar sem sveitarfélögin eiga í hlut, er sjálfsagt mál að ýta áfram á fjármála- og efnahagsráðuneytið (Forseti hringir.) að ljúka vinnu við það samkomulag sem gert var við sveitarfélögin þar að lútandi.