145. löggjafarþing — 64. fundur,  20. jan. 2016.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[18:59]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Þetta er ágætur punktur. Auðvitað er það fyrst og fremst eitt fyrirtæki sem mun njóta hagsældar af frumvarpinu. Það er ekkert hægt að horfa fram hjá því. Mér finnst við ekki geta breytt samfélaginu, þetta mun hafa mikil áhrif alveg sama hvað fólk segir. Við getum ekki haft hagsmuni eins fyrirtækis að leiðarljósi þegar verið er að samþykkja lög á Alþingi.

Ég verð að segja það og ítreka að mín reynsla af því að vinna með aðstandendum og hafandi verið aðstandandi sjálf er þess eðlis að mér finnst vafinn vera of mikill til að ég geti stutt þetta. Það hefur enginn komið með sannfærandi rök fyrir því að hlutirnir verði öðruvísi á Íslandi en í öðrum löndum. Af hverju í ósköpunum? Við höfum ömurlegan áfengiskúltúr hérna Íslandi. Hann er ömurlegur. Hann hefur aðeins lagast og að einhverju leyti út af því að hægt er að kaupa bjór. En áfengisneysla hefur aukist. Þeir sem verða vondir með víni verða ekki betri við það að aðgengið sé betra. Það er staðreynd málsins. Þeir sem verða vondir með víni verða ekki betri með auknu aðgengi að áfengi allan sólarhringinn, fyrir utan það að ég hef áhyggjur af normalíseringunni á því. Persónulega er ég pínulítið öfgakennd vegna þess að ég hef aldrei áfengi í kringum börnin mín. Það er bara ekki í boði að normalísera það út af því ég hef séð skaðsemi þess.