145. löggjafarþing — 64. fundur,  20. jan. 2016.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[19:41]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég er hjartanlega sammála því. Sumir segja í þessari umræðu: Það mun auðvitað koma að því að áfengi verði tekið úr einokun ríkisins. Ég er ósammála því, því að ég held að viðhorfin til áfengisneyslu séu mjög að breytast. Ég held að mikilsvert sé að halda í þetta fyrirkomulag í stað þess að standa svo hér eftir 10, 20 ár og horfa til þess að það hafi verið skammsýni að gera þessar breytingar.

Í greinargerð með frumvarpinu segir á bls. 12 um áhrif á neyslu að aukið aðgengi muni eflaust auka áfengisneyslan tímabundið með breyttri menningu, en líklegt verði þó að telja að jafnvægi náist og neyslan dragist saman eða jafnist út að nýju. Ekki hefur verið sýnt fram á það að varanlegt orsakasamhengi sé milli aukins aðgengis og aukinnar neyslu. Bara það að lesa til dæmis þennan texta væri, ef þetta væri ekki svona alvarlegt mál, hlægilegt, því að ekki þarf að fara djúpt inn á vef Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar eða tala um skýrsluna sem kom út á síðasta ári frá OECD til að lesa nákvæmlega um mjög skýrt orsakasamhengi. Aðgengi er stýrandi þáttur fyrir neyslu áfengis í hverju samfélagi.

Það er mjög truflandi að Sjálfstæðisflokkurinn sem er hér með 19 þingmenn skuli gera frumvarp sem þetta, með greinargerð sem er jafn illa rökstudd og uppbyggð, að burðarfrumvarpi, þingmannamáli á Alþingi Íslendinga. Þetta er forgangsþingmannamál Sjálfstæðisflokksins þar sem dylgjur (Forseti hringir.) eru aðaluppistaðan í greinargerðinni.