145. löggjafarþing — 65. fundur,  21. jan. 2016.

reglugerð um árstíðabundna vöru.

[10:39]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Árlega berast af því fréttir að verið sé að hella niður fullgóðum bjór vegna þess að til er reglugerð sem kveður á um hver sölutími jóla- eða páskabjórs sé, og sú reglugerð er hjá fjármálaráðuneytinu. Mér finnst þetta vera fáránleg sóun. Þessi reglugerð er mannanna verk en þetta er 7. gr. í reglugerð um vöruval og sölu áfengis. Um er að ræða árstíðarbundna vöru. Þó að ég gæti hugsað mér að drekka jólabjór í dag, myndi frekar vilja það en að honum yrði hellt niður, á ég ekki möguleika á því vegna þess að það má ekki selja hann, eins og ég skil þetta.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hann gangi ekki bara í það verk að breyta þessari reglugerð þannig að komið verði í veg fyrir þessa sóun.