145. löggjafarþing — 65. fundur,  21. jan. 2016.

sala bankanna.

[11:40]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Frú forseti. Þetta hefur verið ágætisumræða. Það er að sjálfsögðu knappur tími til að reifa öll sjónarmið, en það hefur verið fróðlegt að fá ólíkar skoðanir fram.

Mig langar að staldra fyrst við það, sem ítrekað er sagt, að allt hafi farið í vaskinn síðast þegar selt var. Í mínum huga er það þannig að í sjálfu sér var það ekki röng ákvörðun að koma bönkunum á sínum tíma úr eignarhaldi ríkisins. Það sem gerðist hins vegar í kjölfarið var að regluverkið reyndist ófullnægjandi og áhættusækni nýrra eigenda var það sem kom okkur öllum í koll með svipuðum hætti og gerðist annars staðar. Það þýðir þess vegna ekki að draga þá ályktun af þeirri niðurstöðu að það hafi verið röng ákvörðun að selja og nota hana síðan til að andmæla því að menn losi um eignarhald ríkisins í dag.

Menn nefna hér að verð séu ekki nægilega góð um þessar mundir. Hollenska ríkið er að selja hluti sína í ABN AMRO. Bretland seldi í RBS og Loyds og hluta í Northern Rock bankanum, Írar hafa selt í Bank of England. Við þær markaðsaðstæður sem menn eru að vísa í núna að skapi ófullnægjandi verð. Ég held að menn ættu líka að fara varlega í fullyrðingar um að verðið verði miklu hærra einhvern tímann seinna. Ég skil ekki heldur þá umræðu að vegna þess að bankinn skili svo miklum arði þá sé miklu betra að eiga hann.

Í fyrsta lagi skulu menn skoða hinar rekstrarlegu forsendur fyrir arðinum. Í öðru lagi liggur fyrir að tekinn verði út mikill arður áður en bankinn verður seldur. Og í þriðja lagi eru fyrirtæki sem skila að jafnaði miklum arði að seljast á gríðarlega háu verði. Þetta eru því rök sem falla um sig sjálf.

Ég vil minna fólk á það hér, þingmenn og aðra, að matsfyrirtækin hafa lagt áherslu á að það skipti máli hvernig við förum með stöðugleikaframlagið varðandi þróun lánshæfismats Íslands. Þannig að það eru tengingar við það hér í þessu.

Að lokum, virðulegi forseti, varðandi það að Bankasýslan megi ekki ráða sér ráðgjafa til að veita stjórnvöldum ráð. Heyr á endemi. (Forseti hringir.) Ekki erum við að kalla eftir því að ráðgjafar séu ráðnir. Bankasýslan er að reyna að rísa og ætlar sér að rísa undir því hlutverki (Forseti hringir.) sem henni er falið lögum samkvæmt. Ég trúi því ekki í alvörunni að menn séu að gera athugasemd við það að þeir ráði til sín ráðgjafa til þess að þau ráð sem við í ráðuneytinu og síðan í þinginu fáum varðandi næstu skref verði vel ígrunduð.