145. löggjafarþing — 66. fundur,  25. jan. 2016.

heilbrigðiskerfið.

[15:25]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég gleymdi líka að svara spurningunni um val á tölfræði þó að hún væri nokkuð sérkennileg. OECD eru samtök afmarkaðs hóps ríkja, en heimsbankinn World Bank heldur hins vegar utan um upplýsingar um hagstærðir hjá öllum ríkjum heims. Ég hef ekki ástæðu til þess að ætla að tölfræði World Banks sé eitthvað verri en tölfræði OECD og geri ekki ráð fyrir að hv. þingmaður hafi hana heldur.

Hvað varðar svo bráðavandann í heilbrigðisþjónustunni, sem hv. þingmaður lýsir svo, þá höfum við einmitt verið að bregðast við honum eins og ég lýsti hér áðan, m.a. með því að auka núna á þessu ári framlög til heilbrigðismála á milli ára um meira en 10%. Það er fáheyrt, virðulegur forseti, en það gerum við vegna þess að við teljum vera þörf fyrir það.

Aftur að spurningunni um verðmætasköpunina og matið á landsframleiðslu þá helst einmitt þetta tvennt í hendur. (Forseti hringir.) Virðulegur forseti, ef landsframleiðslan minnkaði (Forseti hringir.) en framlög til heilbrigðismála héldust óbreytt (Forseti hringir.) gætu menn með því sagt að það væri verið að bæta stöðu heilbrigðisþjónustunnar.