145. löggjafarþing — 67. fundur,  26. jan. 2016.

störf þingsins.

[13:32]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar að nýta ræðutíma minn til að ræða kjör og starfsumhverfi ljósmæðra, starfsstéttar sem við öll hér inni eigum margt og mikið að þakka, starfsstéttar sem er eina kvennastéttin í landinu og þjónustar konur, börn og fjölskyldur á þeirra persónulegustu stundum. Nú er svo komið að áhugaleysi yfirvalda og skortur á viðurkenningu á störfum ljósmæðra er löngu orðið æpandi og ekki er hægt að segja annað en að langvarandi niðurlægjandi framkoma hins opinbera hafi átt sér stað í garð ljósmæðra. Með því er langt seilst í að spara ríkinu aura og krónur.

Á fundi Ljósmæðrafélags Íslands í síðustu viku lýstu sjálfstætt starfandi ljósmæður sem eiga aðild að rammasamningi við Sjúkratryggingar Íslands því yfir að þær teldu sér ekki fært að starfa við heimaþjónustu sængurkvenna kæmi ekki til verulegrar leiðréttingar á rammasamningnum. Í ályktun þeirra segir, með leyfi forseta:

„Undanfarin ár hefur þessi samningur hækkað um örfá prósent á milli ára og nam hækkunin áramótin 2014/2015 um 3,5%. Samkvæmt fjárlögum á nú að hækka greiðslur til þessa málaflokks um 1%. Sú hækkun er langt fyrir neðan vísitöluhækkanir.“

Þetta bætist við langvarandi kjarasamningaviðræður við ríkið á síðasta ári sem enduðu þannig að ljósmæður fengu dæmdar kjarabætur líkt og hjúkrunarfræðingar. Ekki var talin ástæða fyrir ríkið að semja við ljósmæður þrátt fyrir 10 vikna verkfallsaðgerðir ljósmæðra þar sem þær þó unnu vinnu sína í því verkfalli. Fyrir þá vinnu fengu þær ekki greidd laun. Þær fengu ekki greidd laun fyrir að taka á móti börnum í þennan heim og aðstoða fæðandi konur á meðan þær sjálfar stóðu í kjarabaráttu.

Ljósmæður er stétt sem hefur lögum samkvæmt fullan verkfallsrétt, en með þessari aðgerð ríkisins að fara í dómsmál gegn ljósmæðrum þegar þær kröfðust launa fyrir að sinna skyldum sínum og taka á móti börnum í þennan heim var ríkið í raun og veru að taka verkfallsréttinn af ljósmæðrum með handafli.

Virðulegi forseti. Enn og aftur erum við að upplifa aðför að heilbrigðiskerfinu þar sem sótt er að kvennastéttum og konum sem þær þjónusta. Ljósmæður eru ekki hálaunahópur. (Forseti hringir.) Hver er þá raunveruleg skýring á því að ljósmæður mæta skilningsleysi viðsemjanda síns, (Forseti hringir.) ríkisins, eru illa borgaðar og nauðbeygðar til að vinna (Forseti hringir.) launalaust í verkfalli? Er hér um að ræða skýrasta form kerfislægs kynjamisréttis í íslensku samfélagi?(Gripið fram í: Heyr, heyr.)


Efnisorð er vísa í ræðuna