145. löggjafarþing — 67. fundur,  26. jan. 2016.

Parísarfundurinn um loftslagsmál, munnleg skýrsla umhverfis- og auðlindaráðherra.

[14:30]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég vil taka undir þakkir til hæstv. ráðherra fyrir að flytja þingheimi þessa munnlegu skýrslu. Ég var ein þeirra þingmanna sem fengu tækifæri til að sitja þessa loftslagsráðstefnu og taka þátt í fundi alþjóðaþingmannasambandsins helgina fyrr þar sem menn ræddu það sem í vændum var og hvort og hvernig okkur tækist að ná niðurstöðu.

Menn segja að samkomulagið í París sé sögulegt og meðal annars vegna þess að þar komu saman 195 þjóðarleiðtogar sem skrifuðu undir samkomulag um að stemma stigu við frekari hlýnun loftslags. Þeir gerðu það vegna þess að ríkir hagsmunir eru bundnir við óbreytt ástand. Þeir gerðu það vegna þess að það eru yfirgnæfandi líkur á því, og enginn umtalsverður ágreiningur um það lengur á meðal vísindamanna, að losun koltvísýrings af mannavöldum og annarra gastegunda út í andrúmsloftið haldi áfram og leiði af sér hlýnun, bráðnun jökla og háa sjávarstöðu.

Við vitum það sem hér erum og flestallir að loftslagsbreytingar af mannavöldum ógna framtíð mannkyns. Það var markmið fundarins að ríki heimsins kæmu sér saman um að hlýnunin yrði innan 2°C hugsanlega og helst ekki meira en 1,5°C. Af hverju? Meðal annars vegna þess að há sjávarstaða, eins og fram kom í máli hv. þm. Katrínar Jakobsdóttur, ógnar mörgum eyríkjum, bæði í Kyrrahafi og Indlandshafi. Þaðan þurfa íbúar hugsanlega að hverfa á brott með manni og mús vegna þessarar háu sjávarstöðu. Við horfum líka til þess vegna hlýnunar að mörg stöðuvötn eins og í Norður-Afríku eru að þorna þannig að flóttamannastraumur frá Norður-Afríku er án efa beintengdur hlýnun loftslags þó að menn séu ekkert sérstaklega að ræða það. Hvers vegna? Vegna þess að fólk leitar annað til þess að geta lifað því að það lifir enginn án vatns. Skepnur falla og við erum á mörgum vígstöðvum að horfa til þess hvað hefur gerst og hvernig.

Menn voru líka sammála um það í París að það yrði að ná einhverju markmiði. En menn voru ekki endilega sammála um það hvernig ætti að ná því og hvað menn ætli að gera. Flestir vita að þetta er áfangasigur, þetta er bindandi viljayfirlýsing, en það er ekkert þarna sem segir um hvernig fylgja eigi samkomulaginu eftir. Það er hverrar þjóðar fyrir sig. Það er heldur ekkert í þessu samkomulagi sem segir til um viðurlög við brotum. Það er ekkert í þessu samkomulagi sem kveður á um þær aðgerðir sem við þurfum að beita til að ná þessu samkomulagi.

Það er líka merkilegt að á meðan ríki gera samkomulag af þessum toga er, eins og hér hefur komið fram, verið að veita opinbert fé og miklu meira af opinberu fé til að framleiða óendurnýjanlega orkugjafa eins og olíu, kol og gas en sem nemur stuðningi ríkja við endurnýjanlega orkugjafa. Þess vegna er það bara svo, í þessu máli sem og mörgum öðrum, að orð og gjörðir fara ekki alltaf saman, vegna þess að ríkir hagsmunir toga í ólíkar áttir. Þess vegna skiptir það máli fyrir okkur Íslendinga hvort við ætlum að láta orð og gjörðir fara saman eða ætlum við bara að vera þátttakendur í einhverju samkomulagi og láta svo hverjum degi nægja sína þjáningu? Ég vona ekki. En þá þarf að koma til sameiginleg vinna ólíkra aðila á Íslandi. Stjórnmálamanna, embættismanna, fyrirtækja í landinu, almennings og allra, náttúruverndarsamtaka, nefnum þá sem þar þurfa að koma að. Það þurfa allir að koma að til þess að ná þeim markmiðum sem við höfum sett okkur í þessu samkomulagi sem við erum aðilar að.

Ég vil láta þess getið hér að það var sérlega ánægjulegt fyrir okkur í íslensku sendinefndinni, eða að minnsta kosti mig, að fylgjast með framlagi Íslendinga í norræna skálanum þar sem komu fulltrúar frá Orkuveitunni og HS Orku, það komu fulltrúar frá Veðurstofunni og ræddu bráðnun jökla — að fylgja þessu fólki eftir, hlusta á það og sjá hvað aðrir voru í raun undrandi og áhugasamir um þann kraft sem ríkir í þessum málum hér á Íslandi og hvers við erum í raun megnug.

Í París var líka deilt um fjármuni. Allt kostar þetta. Það var deilt um fjármuni í þá veru hve mikið ætti að veita til að styrkja þróunarlöndin í að draga úr losun. Menn ræddu um hvernig og hvers konar styrki ætti að veita til að breyta atvinnuuppbyggingu og almennri orkunotkun. Ætti að fara í að rækta land og skóg? Og deilt var um það fjármagn sem þyrfti til að laga sig að þeim loftslagsbreytingum sem verða í náinni framtíð. Síðast en ekki síst og það skiptir máli var rætt hvort þróuðu löndin skuldi þeim eyríkjum sem hugsanlega sökkva í sæ, vegna hlýnunar jarðar og hækkunar sjávarstöðu, sanngirnisbætur, vegna þess sem við höfum valdið með losun koltvísýrings út í andrúmsloftið.

Það er líka áhugavert að fylgjast með því að forustumenn Alþjóðabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hafa til dæmis lýst þeirri skoðun sinni að gjaldtaka væri nauðsynleg til að hemja losun koltvísýrings út í andrúmsloftið. Það kann að vera rétt. Menn hafa gert það. Menn hafa komið á gjaldtöku. En menn mega heldur ekki gleyma því að andrúmsloftið virðir ekki landamæri. Þess vegna er ekki nóg að eitt ríki ákveði gjaldtöku og annað ekki ef annað ríkið heldur áfram þeirri sóun sem ríkir í dag. Þess vegna þarf, eins og þetta samkomulag gerir ráð fyrir, samkomulag og markvissar aðgerðir til að draga úr losun.

Það kom líka hér fram áðan, í máli hv. þm. Katrínar Jakobsdóttur, að ef við erum með tvenns konar bókhald í loftslagsmálum, í losun koltvísýrings og losun almennt, þarf líka að skoða það. Það er áhugaverð umræða sem fer hér fram á morgun um áhrif kjöt- og mjólkurframleiðslu á loftslagsbreytingar. Það er einn þáttur sem ekki er inni í kvótanum um þá losun sem við ræðum hér í dag og hlýnunina, hvort heldur er 2°C eða 1°C. Við erum heldur ekki, að ég held, með framræsingu lands í bókhaldinu og hvað það kallar á. Það eru því ýmsir þættir sem eru ekki inni í því bókhaldi sem við nýtum okkur í dag til að ná árangri í þessum efnum eða skoða. Við Íslendingar getum til dæmis velt því fyrir okkur hvernig stendur á því að það er ekki í hverri einustu höfn á Íslandi aðstaða fyrir skip til að stinga í samband. Á meðan skipin liggja í höfn geti þau verið tengd við rafmagn í þeirri stöðu sem er verið vinna hverju sinni í staðinn fyrir að keyra dísilvélar eða olíuvélar. Það er ýmislegt svona sem við getum skoðað og velt fyrir okkur.

Virðulegur forseti. Ég tek undir með þeim sem hafa sagt að samkomulagið í París breyti engu sjálfkrafa. Það gefur okkur hins vegar sameiginlegan skilning á því að aðgerða er þörf. Þá skiptir máli að í þeim aðgerðum öllum ríki samstaða og ákvarðanir um aðferðir að markmiðunum séu teknar með eins gagnsæjum og lýðræðislegum hætti og unnt er, vegna þess að þetta er einfaldlega sameiginlegt verkefni okkar nú sem erum í aðstöðu til að breyta. Þetta er sameiginlegt verkefni okkar og okkar ábyrgð gagnvart komandi kynslóðum. (Gripið fram í: Heyr, heyr. )