145. löggjafarþing — 67. fundur,  26. jan. 2016.

Parísarfundurinn um loftslagsmál, munnleg skýrsla umhverfis- og auðlindaráðherra.

[15:27]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka forseta fyrir að hafa veitt meiri tíma í þessa umræðu en upphaflega stóð til. Þetta er mikilvægt málefni og þau verða vart mikilvægari.

Það er eitt sem ég þreytist seint á að minna fólk á þegar kemur að því að bjarga heiminum frá einhverju jafn yfirþyrmandi og loftslagsbreytingum, það er að það kostar að bjarga heiminum. Það eru afskaplega margir sem eru alveg reiðubúnir til þess að gefa meira til fátækra eða reiðubúnir til þess að leggja sitt af mörkum til að bjarga heiminum frá slíkri vá svo lengi sem það kostar ekki neitt, svo lengi sem við getum borað eftir olíu og brennt hana, en auðvitað er það ekki í tengslum við raunveruleikann. Raunveruleikinn er sá, eftir öllu sem ég veit og öllu sem ég hef tekið eftir, að loftslagsbreytingar af mannavöldum eru hafnar og við getum ekkert komist undan þeim. Við getum bara gert þær aðeins skárri en þær geta orðið.

Í því samhengi þykir mér mikilvægt að við tökum afdráttarlaust þá afstöðu á Íslandi að við ætlum ekki að vinna olíuna á Drekasvæðinu. Mér þykir það augljóst. Ég hef tekið eftir því í þeirri umræðu, sér í lagi fyrir svona ári eða tveimur, jafnvel lengur, að sú afstaða að vinna ekki olíuna út af einhverjum umhverfissjónarmiðum hefur verið álitin nokkurs konar barnaskapur, ekki nógu „realpólitískt“ eða eitthvað í þá átt, sem er þvæla að mínu mati, virðulegi forseti, fullkomin þvæla. Við eigum ekki að vinna þessa olíu. Vísindasamfélagið hefur hringt viðvörunarbjöllum og umhverfið sjálft. Þetta er komið á það stig að að mínu mati ætti enginn að efast lengur, þótt ég sé í eðli mínu efahyggjumaður. Staðreyndirnar tala sínu máli og staðan er orðin skýrari en okkur ætti að þykja þægilegt.

Leiðirnar til að lifa ýmist með þessum breytingum og draga úr þeim eftir fremsta megni eru margþættar. Það er engin ein lausn á þessu, þær eru margþættar. Þær felast í nýjum orkugjöfum, helst endurnýjanlegum en auðvitað öðrum sem ekki losa um koltvísýring á meðan við erum að finna enn betri orkugjafa. Þetta er langtímaverkefni. Það þarf miklar tækniframfarir og sér ekkert fyrir endann á þeim næstu áratugina, en við þurfum líka að halda þeim áfram.

Þá vil ég nefna eitt á lokasekúndunum sem er það að ég tel fullkomlega fráleitt að einkamarkaðurinn muni laga þetta vandamál eða draga á einhvern hátt úr því. Þetta er eitt af þeim vandamálum sem við stöndum frammi fyrir sem dýrategund — nei, sem pláneta. Það að ætla kapítalistum að leysa þetta vandamál án aðkomu stjórnmálamanna og taka ákvarðanir fyrir aðra þykir mér fráleit hugmynd, virðulegi forseti, með fullkominni virðingu fyrir öllum með þá skoðun.

Ég minnist ósonlagsins. Það var ekki lagað af einkaaðilum. Það var lagað með pólitískum ákvörðunum alþjóðlegra stjórnmálamanna. Það var þannig sem það var lagað. Við getum ekkert skorast undan ábyrgð í þessum málaflokki.

Ég ítreka aftur: Þetta verður ekki kvalalaust. Við skulum ekki búast við því.