145. löggjafarþing — 67. fundur,  26. jan. 2016.

þjóðfáni Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið.

156. mál
[16:02]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem frumvarp af þessu tagi er rætt hér á þingi. Ég hef setið nokkur þing í nefnd þar sem fjallað hefur verið um þetta mál. Ég skal segja eins og er að mér sýnist frumvarpið taka framförum í hvert skipti sem það er lagt fram vegna þess að skilyrðin og reglurnar um það verða víðari og manneskjulegri og nær nútímanum og raunveruleikanum. Því ber að fagna. Kannski ætti ég að vonast til að það verði lagt fram einu sinni enn þannig að það skáni enn frekar.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Kom ekki til tals í nefndinni einfaldlega að leyfa framleiðendum sem framleiða íslenska vöru að nota fánann og síðan yrði haft eitthvert eftirlit með því hvort misfarið væri með það eða sú heimild misnotuð í stað þess að vera að setja allar þessar reglur? Mér finnst enn gæta forræðishyggju í þessu. Hún hefur skánað frá því fyrir fimm, sex, sjö árum, vissulega. En datt engum í hug að treysta fyrirtækjum bara til að nota fánann en að einhver hefði eftirlit með því hvernig hann yrði notaður?