145. löggjafarþing — 68. fundur,  27. jan. 2016.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

458. mál
[15:58]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil í þessu andsvari ítreka það sem ég sagði áðan. Það sem við erum að fjalla um byggist á 76. gr. stjórnarskrárinnar og því sem umboðsmaður Alþingis hefur sagt í álitum sínum og bæði Hæstiréttur og héraðsdómur þar sem talað er um þá frumskyldu sem lögð er á Alþingi að það taki afstöðu í formi löggjafar til þess hvaða rétt menn skuli eiga til félagslegrar aðstoðar af hálfu hins opinbera, ríkis og sveitarfélaga. Þar er það þannig að löggjafanum ber að sjá til þess að fyrir hendi séu almennar, aðgengilegar og skýrar reglur um inntak þeirrar aðstoðar sem einstaklingar eiga rétt á vegna ýmissa félagslegra þátta. Það hefur ítrekað komið fram að þetta fyrirkomulag er ekki nægilega skýrt. Það hefur verið óskað eftir því frá sveitarfélögunum að þetta verði skýrt og hér er tilraun til þess.

Forverar mínir í starfi hafa jafnframt komið með frumvörp inn í þingið, þeir sem sátu ekki í þessari ríkisstjórn heldur í fyrri ríkisstjórnum, í öðrum flokkum, þar sem þeir hafa líka reynt að bregðast við þessari frumskyldu. Sú krafa byggist líka meðal annars á alþjóðlegum samningum sem við höfum gert, félagsmálasáttmálum og aðild okkar að alþjóðavinnumálastofnunum, sem snýr að lágmarki að félagslegu öryggi.

Það sem ég tel hins vegar að sé verkefni velferðarnefndar núna er að fara einfaldlega yfir þær reglur sem hér er þó verið að leggja til og hvort það sé eitthvað sem Alþingi telur að séu ásættanlegar og nægilega skýrar eða nægilega góðar til að uppfylla það eins og Alþingi vill hafa hlutina.

Og einnig, eins og ég nefndi og hefur komið fram varðandi til dæmis ágreiningsmál við menntamálaráðuneytið og snýr að túlkasjóðnum, að það verða að vera skýrari reglur til grundvallar og það er á endanum Alþingis (Forseti hringir.) að taka afstöðu til þess.