145. löggjafarþing — 68. fundur,  27. jan. 2016.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

458. mál
[18:37]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka enn og aftur fyrir andsvarið. Af hverju við förum í skerðingarfrumvarp — þetta er samkomulag milli ríkis og sveitarfélaga, þ.e. sveitarfélögin fara með framkvæmd þessara mála og hafa kallað eftir því að það komi samræmdar reglur milli sveitarfélaga sem hægt sé að fara eftir. Ég get ekki sagt hvort það þurfi endilega en þetta er það sem sveitarfélögin kalla eftir, framkvæmdaraðilinn sem farið hefur með þetta mál þar sem það hefur verið notað.

Ég get tekið undir orð hv. þingmanns. Ég trúi því heldur ekki að einhver hafi gaman af því að gera ekki neitt, sem manneskja sem þarf alltaf að hafa eitthvað að gera. En við erum auðvitað öll misjöfn og mismunandi, mannflóran.

Eins og ég segi fagna ég því að um sé að ræða einstaklingsmiðaða nálgun, einstaklingsmiðaðar áætlanir sem unnar eru í samráði við þá einstaklinga sem um ræðir. Þeir hafa líka eitthvað um málið að segja. Ég fagna því líka að eingöngu sé um að ræða vinnufæra einstaklinga, ekki óvinnufæra. Ég hlakka til þess að taka efnislega umræðu um málið í hv. velferðarnefnd þegar þar að kemur.