145. löggjafarþing — 69. fundur,  28. jan. 2016.

NATO-þingið 2015.

474. mál
[14:37]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir áhugaverða ræðu, þar á meðal reifunina um viðskiptaþvinganir og þá skoðun sem hv. þingmaður var kominn á í þeim efnum undir lok sinnar ræðu eins og hann tók sjálfur til orða.

Hv. þingmaður byrjaði á að tala um mikla eindrægni, algera eindrægni í Íslandsdeild NATO-þingsins (Gripið fram í.) og það er auðvitað ánægjulegt ef menn verða sammála, en ég vil spyrja hv. þingmann í hverju þessi eindrægni lýsi sér, á hvaða grunni hún sé. Er hún til marks um að Íslandsdeildin sé öll og eindregin og gagnrýnislítið stuðningsaðili þess sem NATO fer fram með? Er það grunnur eindrægninnar? Eða er grunnur eindrægninnar sá að Íslandsdeildin sé sameiginleg í einhverri gagnrýninni afstöðu sem hún hafi haldið þar fram?

Í öðru lagi vék hv. þingmaður að kólnandi ástum NATO og Rússa og tiltók þessi tvö stóru mál sem hefðu markað mjög umræðurnar, þ.e. Úkraínudeiluna og Krím annars vegar og flóttamannavandann hins vegar. Hvað flóttamannavandann varðar þá er ég hjartanlega sammála hv. þingmanni að rætur þeirrar óaldar sem við er að glíma í Miðausturlöndum og núna eru mest í sviðsljósinu, þó að undanskildum deilum Ísraels og Palestínu, þ.e. ástandið í Írak og Sýrlandi, liggja í innrásinni þar. Ábyrgð Vesturlanda og ekki síst Bandaríkjamanna er mikil í þeim efnum.

En má ekki segja að hið sama eigi einnig við að einhverju leyti um Úkraínu? Hvað segir hv. þingmaður um það? Var það kannski ekki þannig að íblöndun Evrópusambandsríkja sumra hverra og Bandaríkjanna í atburðina í Kiev og Maidan-byltinguna og þegar réttkjörinn forseti þrátt fyrir allt, Janúkóvítsj mun hann hafa heitið, var hrakinn frá völdum, skildi að vissu leyti eftir tómarúm eða skapaði óöld og óstöðugleika? (Forseti hringir.) Takandi þó fram að enginn er ég aðdáandi þessa manns, Janúkóvítsj.