145. löggjafarþing — 70. fundur,  1. feb. 2016.

útboð á tollkvótum.

[15:42]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Þetta er hárrétt eins og hæstv. ráðherra rakti málið en afstaða okkar er að verri valkostur hafi verið valinn þegar menn breyttu lögunum. Það er miklu betra að nota leiðina þar sem varpað er hlutkesti vegna þess að við erum að tala um tollkvóta, þetta eru ekki stórir kvótar en markmiðið er að flytja vöru til landsins á lægra verði til hagsbóta fyrir neytendur. Einhver rosalega skilvirkur markaður — jú, það væri náttúrlega æðislegt ef markaðslögmálin giltu í einu og öllu en þau gera það auðvitað ekki hér frekar en annars staðar, hvað þá á matvörumarkaði.

Mér fannst þetta alveg glötuð niðurstaða sem komist var að hérna og mér fannst þetta gert í skjóli nætur. Ég velti fyrir mér 500 milljónunum í þessu tilfelli. Verður þeim skilað til baka til neytenda? Hvernig verður það gert? Getur hæstv. fjármálaráðherra að minnsta kosti (Forseti hringir.) tekið undir með mér um kröfu til seljanda, að þeir muni með einhverjum hætti skila þessu aftur til neytenda, hvernig sem þeir fara að því?