145. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2016.

Evrópuráðsþingið 2015.

465. mál
[14:32]
Horfa

Flm. (Karl Garðarsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur fyrir innlegg hans. Ég er algjörlega sammála því sem hann hefur fram að færa í þessu máli, eins og ég er reyndar oftast þegar við höfum ræðst við í utanríkismálanefnd um þessi mál. Það eru fáir hér innan húss sem hafa betri skilning á utanríkismálum heldur en einmitt hv. þm. Össur Skarphéðinsson.

Það er alveg ljóst að þær þvinganir sem eru í gangi gagnvart Rússum eru farnar að bíta verulega þar innan lands og það vita allir. Það er mjög aukin pressa innan lands á Pútín að reyna að finna einhverja lausn, því fólk er náttúrlega farið að finna fyrir mikilli verðbólgu, hruni rúblunnar o.s.frv. þar. Það er því þrýstingur innan lands á hann, olíuverðið hefur hrunið o.s.frv.

Ég hef þá trú að lausn náist í þessu máli á þessu ári. Það gerist ekki á næstu mánuðum, en vonandi í lok þessa árs. Ég hef fulla trú á því að sú lausn geti tengst mögulegri lausn í Sýrlandi. Þar eru reyndar ákveðin teikn á lofti um stefnubreytingu. Við heyrðum það síðast í gær í fréttum með Breta, þar eru menn farnir að ýta undir hvort ekki sé rétt að hefja jafnvel landhernað í Sýrlandi. Slíkar vangaveltur munu örugglega aukast á næstu mánuðum vegna þeirra hryðjuverka sem átt hafa sér stað á Vesturlöndum. Þannig að ég held að Rússar séu bara komnir á það stig núna að þeir vilji frið í Úkraínu og þeir vilja að sjálfsögðu líka frið í Sýrlandi.