145. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2016.

Alþjóðaþingmannasambandið 2015.

476. mál
[16:12]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Birgittu Jónsdóttur fyrir að flytja okkur skýrslu Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins. Það er greinilegt að á þessum vettvangi er verið að ræða mjög marga og mjög áhugaverða hluti. Ég held að það sé engum vafa undirorpið að þeir sem taka þátt í slíku starfi fá mjög djúpstæða þekkingu á mörgum málaflokkum. Þess vegna held ég að svona skýrslur séu alveg gríðarlega mikilvægar, því að alla vega við sem höfum áhuga á málunum munum lesa þær.

Þetta tengist svolítið inn á umræðuna sem fór fram fyrir nokkrum mínútum um þingmálið á undan þar sem við erum að tala um vægi utanríkismála inn í umræðuna. Það er greinilegt að á vettvangi Alþjóðaþingmannasambandsins er verið að taka á alveg gríðarlega mikilvægum málum í alþjóðlegu samhengi og nóg að nefna mál eins og stuðning við flóttamenn frá Sýrlandi og fleira. Ég velti því fyrir mér: Er þetta ekki alveg rakið dæmi um að búa þurfi til ferli svo að mál sem þessi, sem verið er að ræða á þessum vettvangi, komist einhvern veginn á dagskrá á þjóðþingunum? Ég sé það á skýrslutextanum að þar er orðalag eins og „þjóðþing hvött til að gera eitthvað“ eða „skorað á þjóðþing að (Forseti hringir.) tryggja eitthvað “ en þetta virðist ekki vera íslenskur vandi sem við stöndum frammi fyrir. Er þetta ekki (Forseti hringir.) einmitt dæmi um að við þurfum að (Forseti hringir.) koma þessu inn í þennan kvarða?