145. löggjafarþing — 73. fundur,  3. feb. 2016.

störf þingsins.

[15:17]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Forseti. Mig langar að gera að umtalsefni breytingar á byggingarreglugerð, en þessar breytingar eru til kynningar og umsagnar á síðu umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Það er tvennt sem ég vil gera að umtalsefni í þessum efnum. Í fyrsta lagi eru gerðar tillögur um að aðgengi fatlaðra sé skert og sé skertara en það er í núgildandi byggingarreglugerð. Það er að mínu mati skýrt að slíkar breytingar standast ekki gildandi mannvirkjalög. Þegar sú sem hér stendur mælti fyrir mannvirkjalögum á sínum tíma þá stóð í frumvarpinu eins og það kom frá mér, þáverandi ráðherra, að stuðla skyldi að aðgengi. Alþingi tók málið til skoðunar og niðurstaða Alþingis og afgreiðsla var í þá veru og án mótatkvæða að aðgengi skyldi tryggt. Alþingi hnykkti á kröfunni um aðgengi. Hér er verið að leggja til að aðgengi sé skert frá því sem nú er og þá verður Alþingi að mínu mati að koma að því.

Hitt eru félagsleg áhrif breytinga sem lagðar eru til, önnur félagsleg áhrif. Til að mynda er horfið frá þeirri kröfu að gluggar skuli snúa í tvær áttir og opnað á það að gluggar snúi bara í eina átt. Gluggar sem snúa bara í norður á lítilli og niðurgrafinni íbúð gera þá íbúð mun síðri til íbúðar. Samnýting á eldhúsi fyrir fleiri íbúðir og það að gluggar geti snúið bara í norður eru líka breytingar sem ekki hafa verið í byggingarreglugerð hingað til.

Virðulegi forseti. Það er nauðsynlegt að fram fari mat á félagslegum áhrifum þeirra breytinga sem lagðar eru til á byggingarreglugerð og ég hvet verkalýðshreyfinguna á Íslandi til að skoða þær því að ég vil heyra hvort hún sé sammála þeim breytingum (Forseti hringir.) sem hér er lagðar til að því er varðar gæði ódýrustu íbúðanna á Íslandi.


Efnisorð er vísa í ræðuna