145. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2016.

gjaldtaka af ferðamönnum.

[10:32]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vildi spyrja hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra hvað væri að frétta af náttúrupassanum, þ.e. hvað væri að frétta af fyrirætlunum ríkisstjórnarinnar um einhvers konar gjaldtöku af ferðamönnum sem staðið geti straum af þeim mikla kostnaði sem þarf að ráðast í, m.a. á fjölmörgum náttúrustöðum hringinn í kringum landið. Hér voru uppi fyrirætlanir um að þróa sérstakan náttúrupassa sem sannarlega féllu í grýttan jarðveg. Hugmyndir hafa verið uppi um að hækka gistináttagjaldið. Áður hafði verið ákveðið að hækka virðisaukaskattsstigið í ferðaþjónustunni og margar aðrar tillögur út af fyrir sig verið á borðinu. Nú eru að verða liðin þrjú ár af kjörtímabilinu og ég verð að segja að það hlýtur að vera í hæsta mála tímabært að við fáum niðurstöðu í það hvað hæstv. ráðherra ætlar að gera á kjörtímabilinu í þessu stóra hagsmunamáli íslensku þjóðarinnar. Við þurfum að efla mjög innviði fyrir ferðaþjónustuna og það er mikilvægt að sá kostnaður lendi ekki einvörðungu á íslenskum skattgreiðendum. Það er eðlilegt að þeir sem hingað koma til þess að sækja þjónustu og njóta náttúru Íslands taki þátt í þeim kostnaði sem verður til við það.

Virðisaukaskatturinn er lægri í greininni en á vörur almennt í landinu, þess vegna er sjálfsagt að huga að því hvort gjaldtaka eins og gistináttagjaldið eða aðrir slíkir hlutir geti hjálpað okkur við að fjármagna mikilvæga uppbyggingu við helstu perlur landsins. Ég held að við séum öll sammála um að algerlega nauðsynlegt er til að sýna íslenskri náttúru þá virðingu sem henni ber að ráðast í þá innviðauppbyggingu sem víða er orðið mjög þörf að fara í á fallegustu náttúrustöðum hér á landinu. Þess vegna spyr ég ráðherrann: Hvar stendur þetta mál núna?