145. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2016.

TiSA-samningurinn.

[11:20]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Hv. þm. Ögmundur Jónasson á þakkir skildar fyrir að standa árvökull á varðberginu og koma í veg fyrir að við hin verðum gripin ofan í svelg hins alþjóðlega kapítalisma. Ég held að það skipti máli að menn séu alltaf gagnrýnir á samninga af þessu tagi.

Það eru örfá atriði sem ég vildi gjarnan koma hér að. Í fyrsta lagi byrjaði þessi samningur mjög sakleysislega og það var alveg ljóst í tíð fyrri ríkisstjórnar að þar var lögð mikil áhersla á að hafa allt uppi á borðinu og ferlið allt sem gagnsæjast. Ég fæ ekki betur séð af svörum hæstv. ráðherra en að hann hafi fylgt þeirri línu allar götur síðan. Mér finnast svör hæstv. ráðherra varðandi ásakanir um að einhvers konar leynd eða myrkraverk séu í gangi mjög trúverðug. Wikileaks hefur haldið öðru fram og mér fannst það vera skynsamlegt sem ráðherrann sagði, að á sama tíma og Íslendingar birta á vefnum samningstilboð sín er tæpast hægt að gera þá kröfu til Íslendinga að þeir upplýsi um samningstilboð annarra. Það skiptir miklu máli.

Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra: Hafa einhverjar óskir komið frá einhverjum aðilum um að Íslendingar beiti einhverri óeðlilegri leynd við þetta mál?

Í annan stað er ég þeirrar skoðunar vegna þess hvernig málið hefur þróast, er orðið tilefni mikilla deilna og ásakana um að einhvers konar myrkraverk séu í gangi og menn eigi ekki að fá að koma að málinu, að Alþingi eigi að fá að ræða þetta mál í þaula áður en það verður samþykkt. Þess vegna fagna ég því að ráðherra segir það koma til greina, en ég vil að það komi skýrt fram að það er krafa Samfylkingarinnar að þessi samningur verði ræddur á Alþingi áður en hann verður staðfestur af framkvæmdarvaldinu.

Síðan langar mig til að spyrja hæstv. ráðherra út í þá fregn sem kom í Morgunblaðinu 3. desember síðastliðinn um að Ísland hefði haft einhvern sérstakan atbeina að því að koma í veg fyrir að áfram yrði hægt að greina á milli mismunandi tegunda orku, eins og til dæmis vindorku (Forseti hringir.) og kjarnorku, jarðorku og hins vegar þeirrar orku sem unnin er með bergbroti. (Forseti hringir.) Það er algjörlega í andstöðu við niðurstöðu Parísarráðstefnunnar og í andstöðu við opinbera stefnu Íslands. Er þetta rétt?