145. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2016.

niðurstöður greiningar UNICEF á hag barna og viðbrögð stjórnvalda við þeim.

[12:14]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ef við horfum á velferðarsamfélagið eða velferðarkerfið á Íslandi er það í fyrsta lagi yngra en annars staðar á Norðurlöndunum, það komst í öðru lagi aldrei alveg til sambærilegs þroska, borið saman við það sem best gerðist á blómatímum, t.d. Svía og Dana, í þeim efnum. Í þriðja lagi hefur það því miður lengi einkennt okkur og skorið okkur nokkuð úr í samanburði við hvernig það er annars staðar á Norðurlöndunum, sem mér er tamur, að okkur hefur ekki tekist sérstaklega vel upp við að þróa hér barnvænt og fjölskylduvænt velferðarsamfélag.

Þetta hefur birst og birtist enn í ýmsum myndum, í því sem skýrslan sýnir okkur, óþolandi fátækt allt of margra barna, 6 þús. börn á aldrinum 1–15 ára líða efnislegan skort í þessu ríka samfélagi og þar af 1.600 mjög alvarlegan skort. Þetta birtist okkur auðvitað líka í því að ungt fólk hefur ekki næga trú á framtíðinni eða telur hag sínum ekki nógu vel borgið hér. Þetta birtist einfaldlega í landflótta ungs fólks þrátt fyrir allt talið um góðæri. Við misstum 550 manns á síðasta ári á aldrinum 20–29 ára úr landi. Þetta er unga fólki, annaðhvort komið með börn eða í þann veginn að fara að búa þau til.

Lausnin blasir við. Við vitum hver hún er. Það þarf að bæta skilyrði barnafjölskyldna og styðja við tekjulægstu fjölskyldurnar, það þarf að skapa barnvænt og fjölskylduvænt velferðarsamfélag með öflugri barnabótum, með lengra fæðingarorlofi sem brúar gatið milli fæðingarorlofs og leikskóla, með gjaldfrjálsum leikskóla, fátt kæmi tekjulágum barnafjölskyldum betur en gjaldfrjáls leikskóli, með húsnæðisátaki og stuðningi við tekjulágt fólk vegna húsnæðisöflunar og með skattkerfi sem vegur á móti tekjumisskiptingunni í samfélaginu. (Forseti hringir.)

Verðmætin eru til á Íslandi en það þarf að skipta þeim rétt og beita þeim rétt.