145. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2016.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

458. mál
[16:15]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Jú, svo sannarlega, það þarf að fara fram ítarleg greiningarvinna. Eins og ég sagði í ræðu minni þá einkennist þetta frumvarp af faglegu metnaðarleysi. Það sem verra er, það er verið að taka ákvarðanir án þess að reyna með nokkrum hætti að skoða þann hóp sem til umræðu er eða afleiðingarnar fyrir hann. Þetta einkennist af frjálshyggjuhugsunarhættinum þar sem virðingarleysið fyrir velferð einstaklingsins er algert.

Varðandi Velferðarvaktina þá var það svo að við fengum hana einmitt á okkar fund síðast þegar við vorum með málið til umfjöllunar, það var mjög gagnlegur fundur. Þar er unnið mikilvægt starf. En það eru margir aðilar sem standa að Velferðarvaktinni og kom fram í máli þeirra gesta frá henni sem komu fyrir nefndina að Velferðarvaktin talar ekki einum rómi í þessu máli þó í raun megi lesa út úr niðurstöðum hennar að þetta sé talið mjög hæpið og hættulegt skref að taka. En við munum að sjálfsögðu ræða við Velferðarvaktina sem og ýmsa aðra við umfjöllun á þessu máli í velferðarnefnd.

Það er mikið umhugsunarefni að þegar við sendum til umsagnar mál sem varða sjávarútveg eða orkumál eða bara almannatryggingar, þá er ekki skortur á umsagnaraðilum sem eiga beina hagsmuni að löggjöfinni, en þarna er um að ræða hóp sem er ekki skipulagður hópur, sem á mjög erfitt með að gæta hagsmuna sinna. Við verðum að hafa það í huga og það er okkar að vera hagsmunagæslumenn fyrir þá sem hvað (Forseti hringir.) fátækastir eru á Íslandi og þessi löggjöf varðar.