145. löggjafarþing — 76. fundur,  16. feb. 2016.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

458. mál
[15:24]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er hárrétt, ég sagði: Ef menn vilja ekki skilyrðingar er rétt að banna þær vegna þess að öll sveitarfélög landsins nota skilyrðingar, sem kallaðar eru.

Það sem ég hef kynnt mér um það mál sýnist mér samt sem áður flestar skilyrðingarnar, sem kallaðar eru, innihalda einhver jákvæð atriði. Ég velti fyrir mér hvort ekki þurfi bara að endurnýja orðaforðann og hugsunina varðandi þetta. Í a-lið 2. gr. stendur að sá sem þiggi fjárhagsaðstoð eigi að vera í virkri atvinnuleit eða taka þátt í henni, vera fús til þess.

Kannski er hann eða hún svo uppburðarlítil að hún hefur það ekki í sér að fara í virka atvinnuleit, en svo kemur einhver félagsráðgjafi og segir: Nú skalt þú fara í atvinnuleit, þú skalt fara þarna og gera þetta og gera þetta! Ef viðkomandi er til í það — og við erum öll sammála um það að hann á að vera vinnufær. Það er enginn að leggja til að skerða fólk sem er veikt, það er enginn að leggja það til. Þá segi ég: Er ekki réttara að nálgast þetta á jákvæðan hátt en þann neikvæða hátt sem er í frumvarpinu og setja sveitarfélögunum þá þær skyldur á herðar að vera með hvatningu og úrræði, sem sveitarfélög eru vissulega með, sem kallaðar eru skilyrðingar, en eru (Forseti hringir.) í flestum tilfellum sem betur fer hvatning?