145. löggjafarþing — 76. fundur,  16. feb. 2016.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

458. mál
[16:04]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Ég ætla nú ekki að lengja þessa umræðu, en mig langaði samt til að koma í ræðu hér við 1. umr. Ég er fylgjandi málinu þó að ég telji að bæta megi það í meðförum nefndarinnar. Mér finnst mjög margt í umsögnum sem vert er að skoða, taka tillit til; ég ímynda mér að nefndin muni gera það.

Við ræddum þetta mál einnig á fyrra þingi en það hafði kannski áhrif á umræðuna þá að ríkisstjórnin tók ákvörðun um að skerða rétt til atvinnuleysisbóta úr 36 mánuðum í 30 mánuði. Það var gert með tiltölulega stuttum fyrirvara og ekki voru allir mjög ánægðir með það. Ég held að það hafi kannski litað umræðuna að einhverju leyti. Nú er atvinnuleysi sem betur fer frekar lítið og ekki stór hópur sem er í þessari stöðu. Við ættum því að vera í stakk búin til að takast á við að aðstoða þennan hóp. Ég lít þannig á frumvarpið að við séum að skylda hið opinbera og sveitarfélögin til að taka á þessum málum, aðstoða fólk sem einhverra hluta vegna hefur dottið út af vinnumarkaði til að verða aftur virkt í samfélaginu. Ég vil frekar horfa þannig á þetta að við séum að tryggja að þessu fólki sé hjálpað. Mér hefur á köflum fundist umræðan mjög skrýtin, því eins og hefur verið bent á þá erum við að tala um fólk sem er metið þannig að það sé vinnufært. Það finnst mér vera algjört grundvallaratriði.

Það er síðan áleitin spurning hvernig við látum það gerast að tvö og hálft ár líði á atvinnuleysisbótum án þess að við komum fólki í virkt úrræði. Það er þá kannski það sem snýr að ríkinu. Við höfum úrræði eins og Virk og önnur góð úrræði sem hafa gefið góða raun sem við eigum að nýta eins vel og við getum. Ég mundi kannski frekar vilja beina gagnrýnum augum að því að auðvitað ætti sá hópur sem þarf á þessari fjárhagsaðstoð að halda að vera alveg agnarlítill.

Ég ætla ekki að lengja umræðuna. Ég hlakka til að sjá hvernig málið kemur frá nefndinni. Ég er jákvæð gagnvart því. Ég hef skilning á afstöðu sveitarfélaganna í þessu máli. Ég tek undir það sem fyrri ræðumaður talaði hér um að það er þessi hópur sem fer undir radarinn; hvað verður um það fólk sem þiggur ekki þau úrræði sem eru í boði, fær ekki fjárhagsaðstoðina, hvað verður um hann? Ég held að í svona litlu landi, eins og dæmi eru um í Hafnarfirði, þá eigum við beinlínis að geta fundið það út; við eigum beinlínis að gefa elt manneskjurnar uppi til að sjá bara hver raunin varð.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra og vænti þess að ég taki til máls við 2. umr.