145. löggjafarþing — 76. fundur,  16. feb. 2016.

fríverslunarsamningur við Japan.

22. mál
[16:55]
Horfa

Flm. (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Það er með ánægju sem ég mæli fyrir þessari þingsályktunartillögu sem ég flyt ásamt nokkrum hv. þingmönnum.

Efni tillögunnar er að ríkisstjórnin hefji undirbúning viðræðna við Japan um fríverslun milli ríkjanna. Í tillögunni er sömuleiðis vísað til yfirlýsingar japönsku ríkisstjórnarinnar um eindreginn vilja hennar til þess að auka hlut fríverslunar í milliríkjaviðskiptum.

Saga þessarar tillögu er orðin nokkuð litrík. Þetta er í þriðja skiptið sem hún er flutt. Það verður að segja alveg eins og er að hún hefur hlotið feikilega góðar undirtektir á hinu háa Alþingi. Nefni ég það, frú forseti, að í fyrra var tillagan afgreidd einróma út úr utanríkismálanefnd en sérkennilegar tilviljanir og hugsanlega fallvaltur vilji örlaganna leiddi til þess að hún hlaut aldrei afgreiðslu í tímaþrönginni sem stundum er að finna á Alþingi þegar líður að þinglokum.

Það eru ýmsar ástæður fyrir því að þessi tillaga er flutt. Ég sem er fyrsti flutningsmaður hennar hef beitt mér mjög fyrir fríverslun, ekki síst við Asíulönd. Á sínum tíma sem utanríkisráðherra gekk ég frá merkum fríverslunarsamningi við Kína og ýmsum smærri fríverslunarsamningum við asísk ríki. Á síðasta ári lagði ég sömuleiðis fram þingsályktunartillögu um að Íslendingar hæfu fríverslunarviðræður við ASEAN, sem er ríkjabandalag tíu ríkja í Suðaustur-Asíu.

Tillagan er því hluti af runu tillagna um fríverslun við Asíu. Ég er þeirrar skoðunar að Asía og asísku ríkin séu mjög heillavænlegur markaður til frambúðar. Það kann að vera að í dag skipti viðskipti við þau ekki svo miklu máli. En það er hins vegar ljóst að þar er vaxandi millistétt. Þar er mikill efnahagslegur vöxtur og virðist lítið lát á honum. Þau skipta því miklu máli til þess að búa til tækifæri fyrir íslenska verslun og íslenska framleiðslu inn í framtíðina að ganga frá þessum hlutum með fyrra fallinu. Það er miklu auðveldara að gera slíka samninga núna en síðar.

Um Japan gegnir talsvert öðru máli en ýmis önnur ríki í Asíu. Við höfum langvarandi viðskiptasamband við Japan. Við erum með töluvert umfangsmikla veltu í milliríkjaviðskiptum við Japana, ætli hún nemi ekki hátt á þriðja tug milljarða? Síðast þegar ég gáði þá vorum við að flytja út til Japans vörur fyrir á fjórtánda milljarð. Japanar voru að flytja hingað inn til Íslands vörur að verðmæti sem slagar líkast til hátt í 10 milljarða.

Það er sláandi þegar maður skoðar þá tolla sem þessi milliríkjaverslun sætir að misvægi ríkir millum Íslands annars vegar og Japans hins vegar. Upplýsingar sem við fengum við rannsókn málsins í síðustu lotu í hv. utanríkismálanefnd frá starfsmönnum utanríkisráðuneytisins gáfu til kynna, þótt ekki væru handtækar mjög nákvæmar tölur, að við þyrftum að greiða tolla af um það bil 80% þess innflutnings sem af Íslandi kemur til Japans en Japanar þurfa hins vegar ekki að greiða tolla hér á landi eða gjöld nema sem svaraði til 20 eða 30% á þeim tíma sem það var skoðað. Síðan hafa ýmsar breytingar orðið fyrir tilstilli núverandi ríkisstjórnar sem líkast til hafa gert þetta miklu óhagstæðara fyrir Ísland.

Mín skoðun er að það skipti miklu máli fyrir okkur að íslensk stjórnvöld setji þunga í að ná samningum sem eyðir þessu misvægi, eykur gagnkvæmni og sem í reynd fellir niður gjöld og tolla á þessa verslun.

Í umræðum sem spunnust í þessum salarkynnum fyrir líkast til tveimur eða þremur vikum kom það viðhorf fram hjá einum hv. þingmanni að Japanar hefðu ekki áhuga á að gera samning um fríverslun við Ísland. Það kann vel að vera að svo sé. Ástæðan er þá fyrst og fremst sú að þeim þykir eftir litlu að slægjast. En Íslendingar eiga ekki að taka það viðhorf gilt. Við eigum að þrýsta fast á um að Japan geri slíkan samning og það er ekki síst vegna þess að ég tel að nú sé sérstakt lag til þess.

Japan hefur verið að mörgu leyti lokað land. Þeir hafa gert ákaflega fáa milliríkjasamninga er varða fríverslun á síðustu áratugum. En á síðustu árum hafa þeir horft meira til fríverslunar en áður. Í tíð núverandi forsætisráðherra Japans, Shinzos Abes, sem hefur leitt tvær ríkisstjórnir hefur hann sett fram mjög skýlausa stefnu þar sem þetta kemur skýrt fram. Ein af hinum frægu þremur örvum sem hann kallar efnahagsstefnu sína byggir einmitt á að auka verulega hlut fríverslunar í milliríkjaviðskiptum. Í dag er fríverslun um það bil fimmtungur af milliríkjaverslun Japana og ríkisstjórn Shinzos Abes stefnir að því að auka það upp í 80%.

Í öðru lagi hefur japanska utanríkisráðuneytið sett fram stefnu um það við hvaða ríki og ríkjabandalög Japanar vilja helst gera hina fyrstu fríverslunarsamninga. Það kemur fram mjög skýrt að þeir horfa einkum til ríkja sem búa að sterkum auðlindum og framleiða matvæli, ekki síst sjávarfang. Sjávarfang er einmitt stór hluti af því sem við erum að flytja þangað út. Miðað við þetta er alveg ljóst að Ísland fellur ákaflega vel að þeim skilgreiningum sem Japanar hafa sjálfir dregið upp af þeim ríkjum sem þeir vilja eiga samskipti við. Í þriðja lagi skiptir líka máli í þessum efnum að við höfum stillt okkur í röð þeirra ríkja sem Japanar eiga samleið með. Við erum í hópi þeirra vestrænu lýðræðisríkja sem byggja samfélagsskipan sína á lýðræði, mannréttindum og reglum réttarríkisins. Við eigum samleið með Japönum og eigum í krafti þeirrar samstöðu að kalla eftir samvinnu af þessu tagi. Síðast en ekki síst hafa samskipti landanna verið mjög farsæl. Japanar hafa til dæmis átt samvinnu við Ísland um að byggja hér upp orkuframleiðslu á síðustu 30 árum. Til skamms tíma höfðu allar túrbínur í íslensk orkuvirki t.d. verið keyptar í Japan og verið fjármögnuð með japönskum lánum. Þrátt fyrir þetta hefur ekki verið hljómgrunnur fyrir því hjá Japönum, að því er sagt er af hálfu þeirra sem nú fara með framkvæmdarvald, að ráðast í gerð fríverslunarsamnings við okkur.

Þá þarf líka að horfa til þess að við höfum árum saman sömuleiðis leitað eftir því, ég meðal annars meðan ég var utanríkisráðherra, að gera loftferðasamning við Japan. Við erum nefnilega hið eina af Norðurlöndunum sem Japan hefur ekki viljað gera við loftferðasamning. Rökin eru mjög ljós af þeirra hálfu. Það er smæð Íslands. En það eru einmitt þau rök sem Íslendingar hafa aldrei tekið gild. Við höfum aldrei fallist á að smæð Íslands eigi að torvelda jákvæð og öflugri samskipti okkur við önnur ríki.

Horfum líka til þess að núna á þessu ári er 60 ára afmæli stjórnmálasambands Íslands og Japans. Ég tel að þetta séu tímamót sem við eigum að nýta til þess að reyna að hnýta samband okkar við Japan traustari hnútum. Við eigum að nota þessi tímamót til að knýja á um að þeirra sé minnst með því að við gerum samning af þessu tagi. Það er alsiða í samskiptum ríkja á slíkum tímamótum að stórafmæli stjórnmálasambands séu notuð til þess að ráðast í áfanga af þessu tagi. Ég tel að þarna séu sterk rök fyrir því að íslensk stjórnvöld geti nú knúið dyra.

Það væri hægt að nefna fleiri rök, m.a. rök hinnar pólitísku jafnvægislistar. Við höfum gert fríverslunarsamning við alþýðulýðveldið Kína. Við vitum öll sem fylgjumst með alþjóðlegum stjórnmálum að það eru viðsjár í viðskiptum Japans og Kína og það er eðlilegt við þær aðstæður að við viljum iðka þá jafnvægislist sem felst í því að gera ekki einvörðungu slíkan samning við alþýðulýðveldið heldur líka við Japan.

Ég nefni það líka að vegna þeirrar viðsjár sem hefur skapast á Suður-Kínahafi í samskiptum Japana við ekki síst Kína, þá hefur Japan í vaxandi mæli horft til aukinnar samstöðu með ríkjum Atlantshafsbandalagsins. Minni ég af því tilefni á heimsókn forsætisráðherra Japans í höfuðstöðvar NATO þar sem hann hélt merka ræðu þar sem hann bókstaflega kallaði eftir nánari samvinnu við Atlantshafsbandalagið. Væntanlega er það vegna þess að hann telur að Japan geti nokkurn styrk haft af því. Þetta skiptir líka máli fyrir stöðu Íslands gagnvart fríverslunarsamningi. Ísland er stofnaðili að Atlantshafsbandalaginu og okkar rödd skiptir máli innan þess. Þetta ættu Japanar alveg eins og við að hafa í huga þegar staðföst ósk af því tagi sem reifuð er með þessari tillögu kemur fram.

Það má auðvitað segja sem svo að það sé fyrst og fremst hlutverk og í valdi framkvæmdarvaldsins að taka ákvarðanir af þessum toga. Ég held hins vegar að Alþingi eigi að láta mál af þessu tagi til sín taka. Ég held einmitt vegna þeirra viðhorfa og nokkurs tómlætis Japana gagnvart samningi af því tagi sem ég hef drepið á á ýmsum stöðum í ræðu minni þá skipti það miklu máli að Alþingi láti rödd sína heyrast í þessu. Það skiptir máli eins og ég veit af samskiptum við japanska þingmenn og heimsóknum þangað bæði sem ráðherra en ekki síður sem almennur þingmaður að menn taka mark á því þegar þing tekur ákvörðun eða mótar stefnu með þessum hætti eins og yrði ef Alþingi mundi samþykkja tillöguna.

Frú forseti. Það er að öllu samanlögðu þess vegna tímabært nákvæmlega núna, ég tala nú ekki um svo að segja í þann mund sem sendinefnd er að fara frá íslenska þinginu til japanska þingsins, að Alþingi geri reka að því að ljúka þessari tillögu sem hingað til hefur komið nokkuð vel fram að ríkur vilji er til að samþykkja á Alþingi.