145. löggjafarþing — 77. fundur,  17. feb. 2016.

þörf á fjárfestingum í innviðum.

[16:01]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Vegakerfið þarf á uppbyggingu að halda. Efla þarf löggæsluna og álagið á heilbrigðiskerfið hefur líka aukist vegna fjölda ferðamanna. Ef stjórnvöld draga lappirnar í innviðauppbyggingu er ferðaþjónustan og fjárfestingar í henni í hættu svo ekki sé talað um öryggi manna og heilsu. Við þetta bætist svo ákall landsmanna um fjárveitingu til heilbrigðiskerfisins í gegnum undirskriftalista sem Kári Stefánsson stendur fyrir. Stjórnvöld segjast munu bregðast við því kalli. Framkvæmdir og fleiri störf sem verða til við uppbyggingu á þessum sviðum munu valda þenslu ef ekkert er að gert.

Tvennt kemur helst til greina til að verjast þenslu, að skera niður aðra starfsemi á móti eða hækka skatta. Hægri stjórninni er betur trúandi til að velja niðurskurð en sá niðurskurður mætti þá ekki beinast að viðhaldi vega, löggæslu eða heilbrigðiskerfinu. Þá eru fáir stórir póstar eftir. Þeir helstu eru almannatryggingar og skólarnir. Kæmi til greina niðurskurður á barnabótum? Ættu stjórnvöld kannski að sleppa því að hækka húsnæðisbætur og sleppa því að ráðast í vandann á húsnæðismarkaði? Skerða kjör aldraðra og öryrkja kannski, setja á fjöldatakmarkanir í skólum og fækka kennurum?

Ég held að meira að segja hægri mönnum finnist þessi ógeðslisti ekki árennilegur, síst rétt fyrir kosningar. Með hinni leiðinni, að hækka skatta, getur hægri stjórnin leiðrétt sínar eigin aðgerðir og tekið til baka tekjuskattslækkanir sem tekjuháir njóta sem og lækkun á veiðigjaldi og sett á orkuskatt og auðlegðarskatt eða fjölgað skattþrepum til að ná inn hátekjuskatti. Ég tel líklegast, ekki síst eftir að hafa heyrt í hæstv. fjármálaráðherra áðan, að hægri stjórnin muni ekki gera neitt. Hún mun ekki byggja upp, ekki skera niður og ekki hækka skatta. Hún mun bara halda að sér höndum fram yfir kosningar og vonast til (Forseti hringir.) að of stórt tjón verði ekki af vanrækslunni.