145. löggjafarþing — 77. fundur,  17. feb. 2016.

þörf á fjárfestingum í innviðum.

[16:20]
Horfa

Haraldur Einarsson (F):

Hæstv. forseti. Það er alveg sama hver gerði hvað og hvað er hverjum að þakka, öllum er ljóst að þetta er verkefni okkar næstu árin, þ.e. að auka í innviðauppbyggingu samfélagsins. Eins og margir hafa rætt hér á undan vantar fjármuni í mjög marga þætti. Ég er nýkominn, eins og fleiri þingmenn, úr kjördæmaviku og ætli við í Suðurkjördæmi finnum ekki hvað harðast fyrir því hvar fjármuni vantar á landsbyggðinni. Við getum nefnt, eins og aðrir, hafnir og almenningssamgöngur.

Og af því að þingmönnum hér inni verður tíðrætt um Landspítalann og undirskriftasafnanir langar mig að nefna heilbrigðisþjónustu úti á landi. Ferðamenn sem koma út á land nýta líka þessa heilbrigðisþjónustu og ég held að það þurfi að stórefla heilbrigðisþjónustu úti á landi og jafnvel frekar en heilbrigðisþjónustu hér í Reykjavík þótt vissulega sé þörf fyrir nýjan Landspítala.

Við getum talið endalaust; innviðir ferðaþjónustunnar, menntamálin. Svo að við séum ekki bara að tala um það sem vantar getum við líka talað um jákvætt mál sem er ljósleiðarinn sem við lögðum 500 milljónir í á síðustu fjárlögum og er áætlað að ljúki 2020. Kannski þurfum við fleiri slíkar áætlanir um hvenær við ljúkum við að byggja upp innviði okkar.

Ég er sammála hæstv. fjármálaráðherra þegar hann talar um að líklega séum við komin á þann stað að við drögum ekki meira saman í rekstri. Þá held ég að það sé okkar hlutverk hér að finna leiðir til að auka þá fjármuni sem ríkið hefur. (Forseti hringir.) Það er auðvelt að nefna það að skattleggja lífeyri, skattundanskot, komugjald o.fl. í þeim efnum, en ég held að það sé verkefni sem við eigum að einbeita okkur að, hvernig við aukum tekjurnar í þessa innviði.