145. löggjafarþing — 77. fundur,  17. feb. 2016.

samstarf Íslands og Grænlands.

23. mál
[16:59]
Horfa

Flm. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður nefnir það sem hann kallar lítið flugfélag úr kjördæmi sínu staðsett á Akureyri, Norlandair. Þá er rétt að geta þess að á síðustu árum, eftir því sem áhugi manna hefur aukist á norðurslóðum, er orðin gríðarleg aukning í hvers konar rannsóknarvinnu, einkum að sumarlagi en þó allan ársins hring hin seinni ár.

Norlandair er það flugfélag sem sér nánast um flug á öllum þessum rannsóknarleiðöngrum. Þeir fara og lenda á jöklum og það er ferðamáti vísindamanna. Ég held að ég megi segja að það séu hundruð vísindamanna og gríðarlegt magn af tækjum og búnaði sem þetta flugfélag flytur á hverju ári til Grænlands og má segja að án þess væri staða rannsókna á Grænlandi, og reyndar líka á ýmsum svæðum þar um kring, því þeir fljúga alla leið yfir á austursvæði kanadíska frerans, ekki sú sem hún er, bara svo að það liggi alveg ljóst fyrir.

Við höfum mikið gagn af samvinnu og sambýli við Grænland á sviði flugsamgangna. Nú er flogið til Grænlands og ekki bara frá Íslandi heldur líka frá Danmörku. En Icelandair og Flugfélag Íslands eru engir aukvisar í markaðssetningu. Ef menn skoða hvaðan ferðamenn til Grænlands koma má heita að mikill meiri hluti þeirra sé fluttur til Grænlands í gegnum það port eða hlið sem Ísland er, þ.e. með Icelandair og síðan áfram með Flugfélagi Íslands til Grænlands; ekki frá Kaupmannahöfn.

Það er þess vegna sem Grænlendingar leggja svo mikla áherslu á að vinna þetta samstarf enn betur. Það sem við græðum á því er að ferðamenn eru í leit að nýjum og auknum upplifunum og það að geta boðið upp á Grænland — hvort heldur er dagsferðir á austurströndina eða tveggja til þriggja daga ferðir, eða jafnvel vikuferðir, eins og nú eru í boði, yfir á vesturströndina — eykur (Forseti hringir.) segulmagn Íslands því að þá geta menn í reynd slegið tvær flugur í einu höggi. Þeir geta farið til tveggja norðlægra landa í sömu ferðinni. Þetta er í stöðugum vexti til hagsbóta fyrir báðar þjóðirnar.