145. löggjafarþing — 77. fundur,  17. feb. 2016.

þingsköp Alþingis.

331. mál
[17:26]
Horfa

Flm. (Guðmundur Steingrímsson) (Bf):

Virðulegur forseti. Þetta er ákaflega einfalt frumvarp en ég tel hins vegar að verði það að lögum geti það í einfaldleika sínum haft mjög góð áhrif á þingstörfin og lýðræðið og þingræðið í landinu. Við stöndum að því þingmenn úr þremur flokkum, Bjartri framtíð, Pírötum og Samfylkingu, og snýst frumvarpið um að þingskapalögum verði breytt á þann veg að forseti Alþingis eða þingmaður þurfi aukinn meiri hluta greiddra atkvæða til þess að ná kjöri sem forseti Alþingis. Eins og þetta er núna nægir að fá yfir helming greiddra atkvæða til þess að verða kjörinn forseti Alþingis en í tillögunni er gert ráð fyrir að sá verði rétt kjörinn forseti sem hlotið hefur meira en 2/3 hluta greiddra atkvæða.

Frumvarpið lætur kannski lítið yfir sér en ég tel málið afar þýðingarmikið og veit til þess að þetta hafi verið rætt meðal annars í þingskapanefnd. Engu að síður viljum vil leggja tillöguna fram, vegna þess að þetta hefur hvað eftir annað komið upp í þingstörfunum og það er mikið rætt um að bæta þingstörfin og koma okkur upp úr ýmsum gömlum hjólförum í þeim og bæta menninguna. Ég held að ýmislegt sé hægt að gera og þetta er þar á meðal, að forseti Alþingis sitji í umboði ekki aðeins stjórnarmeirihlutans heldur líka verulegs hluta þingmanna úr minni hlutanum. Hann sitji sem sagt meira í umboði þingsins alls.

Núna er það þannig að yfirleitt er forseti Alþingis kosinn þegar hann er kjörinn með öllum greiddum atkvæðum. Það er sjaldnast sem það eru mótatkvæði eða mótframboð, en engu að síður situr forsetinn þegar á hólminn er komið í skjóli einfalds meiri hluta. Það er því mjög rík tilhneiging til þess í þingstörfunum að forseti Alþingis bíði þangað til hann veit hvað framkvæmdarvaldið ætlar sér að gera, hvað stjórnarmeirihlutinn ætlar sér að gera. Þegar það er mikill hiti í þingstörfunum finnst mér blasa við að forseti Alþingis lítur eiginlega svo á að hann hafi ekki völd til þess að fara gegn meiri hlutanum og hann verður oft frekar passífur í störfum sínum, svo ég sletti. Ef forseti Alþingis sæti í umboði 2/3 þingmanna stæði hann á sterkari grundvelli, hann gæti beitt sér meira í þágu þingsins og fyrir þingið gagnvart ofursterkum áhrifum framkvæmdarvaldsins. Hann gæti vísað til þess að hann sæti ekki aðeins í umboði meiri hlutans heldur einnig minni hlutans. Hann þyrfti þess vegna að beita sér fyrir því að til dæmis stjórnarfrumvörp kæmu snemma inn í þingið, sem er vandamál sem hefur blasað við, þau koma seint inn í þingið. Hann gæti litið svo á að hann hefði umboð til þess að beita sér fyrir sáttum þegar mikið deilt. Mér finnst það oft koma upp í þingstörfunum að forseti bíður eftir frumkvæði forsætisráðherra þegar allt er komið í hnút. Mér finnst það bagalegt. Mér finnst að forseti þingsins eigi að hafa ríkt umboð til þess að beita sér, leiða saman stríðandi fylkingar, reyna að ná sáttum. Hann á að hafa ríkt umboð til þess að setja mál á dagskrá og semja um dagskrá og gera það þannig að hann þurfi að hlusta á sjónarmið allra í þinginu.

Forseti Alþingi á ekki að vera erindreki ríkisstjórnarinnar, eins og við segjum í greinargerðinni. Hann á ekki að taka við skipunum frá framkvæmdarvaldinu. Þess vegna er þessi tillaga liður í að efla þingræðið. Ef við kjósum okkur forseta sem situr meira í umboði alls þingheims er hann sterkari gagnvart framkvæmdarvaldinu og ég hef þá trú að með sterkari forseta, með forseta sem lítur svo á að hann þurfi að hlusta mjög vel á sjónarmiða allra þingmanna — og ég er svo sem ekki að segja að ég sé ekki mjög ánægður með núverandi hæstv. forseta Alþingis en af því að hann er kosinn svona hefur hann ekki sterkan grundvöll til að standa á og til að beita sér betur. Þetta er liður í því að skapa þann grundvöll.

Mér finnst þetta eitt af því sem hægt er að gera í þingskapalögum til þess að bæta þinghaldið. Ég byrjaði reyndar á því að skrifa þetta frumvarp með það inni að setja ætti í þingskapalögin að skjóta mætti frumvörpum og þingsályktunartillögum til þjóðaratkvæðagreiðslu áður en þau væru staðfest. Það kom á daginn að það væri frekar einfalt, alla vega að mínu mati, að skrifa það inn í þingskapalögin en hins vegar er það ánægjulega að gerast að slíkar tillögur koma frá stjórnarskrárnefndinni og ég ákvað að bíða með að koma með frumvarp um það og sjá hvað stjórnarskrárnefndin gerir. Það eru sem betur fer að koma tillögur um þjóðaratkvæðagreiðslur, þótt þær séu reyndar ekki um að þingmenn geti sett mál í þjóðaratkvæðagreiðslu heldur að þjóðin eða 15% kosningabærra manna geti beðið um þjóðaratkvæðagreiðslu. Það tel ég mjög til bóta.

Mér finnst eftir að hafa íhugað þingstörfin og orðið vitni að þeim klemmum og hnútum sem koma oft upp í þingstörfunum tvennt blasa við sem hægt er að gera. Annars vegar að auka styrk forseta Alþingis með því að færa honum ríkara umboð og láta hann sitja í skjóli þingheims alls og hins vegar mætti setja í þingsköp að þriðjungur þingmanna hafi rétt til þess að setja mál í þjóðaratkvæðagreiðslu. En við flutningsmenn tillögunnar ákváðum að halda okkur við fyrri hlutann og vonum að málið fái góðar undirtektir, enda held ég að margir þingmenn hafi skynjað í störfum sínum að það yrði mjög til bóta að forseti Alþingis fengi styrkari grundvöll til að standa á.