145. löggjafarþing — 77. fundur,  17. feb. 2016.

umbætur á fyrirkomulagi peningamyndunar.

169. mál
[18:20]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um umbætur á fyrirkomulagi peningamyndunar. Hv. þm. Frosti Sigurjónsson, 1. flutningsmaður, fór mjög vel yfir tillöguna og forsendur málsins, þessa tillögu um skipun nefndar sem er ætlað að taka út fyrirkomulag peningamyndunar og gera tillögu að úrbótum.

Ég er meðflutningsmaður á þessu máli. Ég met það svo að við þurfum að endurskoða okkar kerfi, bæði peningakerfið og fjármálakerfið og fjármálamarkaðinn. Ég tel að hér sé mjög merkileg tillaga á ferðinni og ekki síður sú skýrsla sem liggur að baki tillögunni, sem hv. þingmaður vann fyrir hæstv. forsætisráðherra; skýrsla um mögulegar umbætur peningakerfisins hér á landi, eins og undirtitill skýrslunnar ber með sér: Betra peningakerfi fyrir Ísland. Ég tel rökrétt framhald af þeirri vinnu að unnin verði af þinginu, eins og lagt er upp með í þessari tillögu, slík úttekt sem verður örugglega til að varpa frekara ljósi á peningakerfið okkar eins og það virkar í dag og mögulegar úrbætur sem afurð af þeirri vinnu sem lagt er upp með.

Við stöndum að mörgu leyti á krossgötum alla vega frammi fyrir miklum áskorunum þegar kemur að fjölmörgum þáttum hagkerfis okkar og efnahagslífs. Hv. þm. Frosti Sigurjónsson fór hér áðan vel yfir efnahagssögu okkar, um miklar sveiflur, verðsveiflur, verðbólgu- og óðaverðbólgutímabil, gengisfellingar, eignabólur og hrun og aðdraganda að hruni fjármálakerfisins, bankakerfisins, árið 2008 og hvernig peningamyndunin hafði áhrif þar á.

Þetta er ekki einsdæmi fyrir Ísland. Slíkar krísur og áföll hafa víða komið upp síðustu áratugina með viðlíka afleiðingum, misafdrifaríkum. Það kemur fram í þessari ágætu skýrslu, sem ég vitna til og hv. þingmaður vann, að 147 bankakrísur hafi orðið í heiminum í 114 löndum frá árinu 1970. En það hefur hins vegar ekki náðst samstaða um að framkalla meginbreytingar á því kerfi sem er við lýði, þ.e. kerfisbreytingar, en þá erum við ekki að tala um lagabreytingar sem snúa að umhverfi fjármálastofnana og banka, að fjármálakerfinu og stofnunum þess sem eru fjölmargar; breytingar í viðleitni til að tryggja öryggi og stöðugleika og breytingar á hinum ýmsu lögum eins og við þekkjum.

Mögulega eru tækifæri fólgin í því að fara í kerfisbreytingar og falla frá því sem kallað er brotaforðakerfi þar sem bankar geta í raun og veru prentað peninga með því að stofna til innstæðna og veita lán, þetta hlutverk sem Seðlabankinn hefur í raun og veru en hefur ekki haft fullt vald á, þ.e. að stýra framboði peninga í umferð.

Hv. þingmaður kom vel inn á það hvernig þetta kerfi getur ýkt sveiflur, hagsveiflur, hvort heldur er í samdrætti eða uppsveiflu eins og við höfum svo sannarlega upplifað. Þetta þarf allt að skoða. Þess vegna styð ég þetta mál og tel að það sé hluti af þeirri endurskoðun sem við þurfum að fara í á okkar kerfum. Vonandi varpar sú vinna sem þessi tillaga leggur til frekari ljósi á úrlausnir og bætta hagstjórn, hvort sem það er í peningamálum þjóðarinnar eða því sem snýr að fjármálakerfinu.

Fyrst þegar ég heyrði um hugmyndir að betra peningakerfi þá fór maður svona inn í kenningaboxið ef svo má að orði komast, virðulegi forseti. Peningamagnskenning er til að mynda kenning sem hefur þróast í gegnum aldirnar. Við þekkjum öll kenningar Keynes, sem komu í kjölfar kreppunnar miklu; hann gaf út þessa bók um atvinnu, vexti og peninga þar sem reynt var að fara nýjar leiðir í því að ná fram stöðugleika og takast á við það mikla atvinnuleysi sem fylgdi í kjölfar kreppunnar. En hvað sem öðru líður um þróun kenninga hefur brotaforðakerfið, eins og það sem við búum við, mætt vaxandi gagnrýni auk vísbendinga um þátt kerfisins í hruni fjármálakerfisins og veikleika sem bent hefur verið á.

Einnig hefur verið bent á þá staðreynd að Seðlabankinn með öllum sínum stýritækjum, aðallega vaxtastýritækinu, hefur ekki náð fullkomlega að halda aftur af aukningu eða stýra alfarið peningamagninu með tilheyrandi afleiðingum. Til að mynda nítjánfaldaðist peningamagn í landinu á 14 ára tímabili í aðdraganda hrunsins.

Þá er nauðsynlegt að greina mögulegar úrbætur. Ég ítreka að það er sannarlega bæði ástæða og tækifæri til þess, með þá skýrslu sem liggur til grundvallar og þingsályktunartillögunni eins og hún er sett upp, þar sem ég er sannfærður um að með aðkomu okkar færustu sérfræðinga og stofnana á þessu sviði og þeirri nefnd þingmanna sem mun vinna að þessu máli muni slík úttekt gagnast mjög vel sem innlegg í þær áskoranir sem sannarlega liggja fyrir þinginu.

Þá er ég með í huga að skoða peningastefnu, fjármálastefnu og fjármálamarkaðinn. Við stöndum frammi fyrir því að stór hluti af bankakerfinu er kominn í eigu ríkisins og eignarhald á bönkum er mikið í umræðunni. Áskoranirnar eru miklar og það blasir við að það er ýmislegt sem þarf að taka til gagngerrar skoðunar og endurhugsunar og taka inn í heildarstefnumótun á hagkerfi okkar, efnahagslífi, peningastefnu og fjármálastefnu.

Þessi brennandi spurning sem kemur fram í greinargerð, svo að ég fari nú að ljúka þessu máli mínu, virðulegi forseti, á bls. 2 finnst mér súmmera þetta ágætlega upp, þetta pólitíska viðfangsefni um bankakerfið sem á að þjóna almenningi. Þar segir, með leyfi forseta:

„Brotaforðakerfið hefur sætt vaxandi gagnrýni. Fyrrum bankastjóri Englandsbanka [Lord Mervyn King, 2010] hefur kallað það verst allra mögulegra peningakerfa og telur afar brýnt að gera endurbætur á.“

Ég er sannfærður um að þetta mál er mikilvægt. Eins og það er lagt upp er ég sannfærður um að það geti hjálpað okkur í að endurmeta og endurhugsa margt í hagkerfi okkar þegar kemur að peningamálum og framtíðarstefnumótun í peningamálum.