145. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2016.

fullgilding stofnsamnings um Innviðafjárfestingabanka Asíu.

436. mál
[14:21]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F):

Ég vil vekja athygli á því að það er ýmislegt sem getur farið úrskeiðis við aðild okkar að þessu fjölþjóðlega samstarfi. 150 ríki hafa ákveðið að vera ekki með í þessum banka.

Þessi banki mun fá heimildir á Íslandi sem eru fordæmalitlar. Hann mun vera hafinn yfir lög og reglu, yfir skattalög, yfir allt eftirlit með starfsemi hans hér á landi. Hann mun fá reikning við Seðlabankann þar sem hann getur fært inn fé að vild án þess að nokkur spyrji spurninga um hvaða fé þetta er og hvert það er að fara. Það er bannað að haldleggja eignir hans. Hann er hafinn yfir lög á Íslandi.

Það sem ég held að sé mun alvarlega er að við erum að fara inn í þetta með fámennum hópi ríkja, 50 ríki af 200 hafa ákveðið að vera með í þessu. Kanadamenn, Bandaríkjamenn, Japanar og fleiri þjóðir ætla ekki að vera með. Þó að önnur ríki Evrópu eða Norðurlandanna kjósi að taka þá áhættu að vera með í þessu held ég að þetta sé eitthvað sem okkar land ætti ekki að taka þátt í. Það getur ýmislegt farið úrskeiðis síðar. Ég segi nei.