145. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2016.

aukin viðvera herliðs á Keflavíkurflugvelli.

[14:51]
Horfa

Elín Hirst (S):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að ég hef haft áhyggjur af öryggis- og varnarmálum Íslands um nokkurt skeið, sérstaklega eftir árásir hryðjuverkasamtaka í Evrópu að undanförnu og einnig vegna hegðunar Rússa á alþjóðavettvangi sem ég vil alls ekki taka undir að sé einhver Rússafóbía þar sem maður horfir upp á að Rússar brjóta alþjóðalög og sáttmála, innlima Krímskaga með hervaldi og hafa hernaðarumsvif í Úkraínu. Auk þess er ótti við að tiltölulega nýfengið og langþráð sjálfstæði Eystrasaltslandanna, Eistlands, Lettlands og Litháens, verði ekki virt. Þetta eru áhyggjur sem má ekki gera lítið úr.

Ég hef einnig, eins og fleiri íslenskir stjórnmálamenn, verið ákafur talsmaður þess að hér á landi yrði sett á fót alþjóðleg leitar- og björgunarsveit, nú þegar skipaumferð norður af Íslandi hefur stóraukist og í kjölfar opnunar norðaustursiglingaleiðarinnar. Við munum horfa upp á stórkostlegar breytingar á skipaumferð á heimsvísu og því tel ég að leitar- og björgunarmiðstöð hér við land væri mjög nauðsynleg.

Eftir árásirnar á tvíburaturnana í Bandaríkjunum breyttist stöðumat Bandaríkjanna — það var á meðan Rússar voru okkur enn vinveittir — og þeir fóru frá Íslandi eins og öllum er kunnugt en nú stendur til að fara að framkvæma á ný á Keflavíkurflugvelli fyrir hönd bandaríska flotans til að stækka flugskýli. Ég fagna auknum varnarviðbúnaði hér á landi með öryggishagsmuni Íslendinga í fyrirrúmi.