145. löggjafarþing — 81. fundur,  29. feb. 2016.

brottflutningur íslenskra ríkisborgara.

348. mál
[16:14]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég held áfram þar sem frá var horfið með hliðsjón af þeim viðbótarspurningum sem komu fram í millitíðinni.

Það er ljóst að leiguverð hefur farið mjög hækkandi á Íslandi, ekki hvað síst vegna þess að mikil fjölgun erlendra ferðamanna hefur ýtt verðinu upp. En af því að hér er rætt um húsnæðismál almennt, hvort það kunni að vera einhver skýring, þá hugsa ég að það sé nú heldur langsótt því að í öllum þeim löndum sem Íslendingar hafa verið að flytja til öðrum löndum fremur, í Bretlandi augljóslega en líka í Danmörku, Noregi — Norðurlöndin öll, má segja, hafa átt í mjög mikilli umræðu í sinni pólitík, sínu samfélagi, um þann vanda sem menn standa frammi fyrir þar í húsnæðismálum.

Við skulum hafa í huga að greiðslubyrðin af húsnæðiskostnaði á Íslandi er hlutfallslega lægri en í flestum þessum löndum og skuldastaða íslenskra heimila hefur batnað langt umfram þróunina á skuldastöðu heimila í hinum löndunum sem ég nefndi.

Að sjálfsögðu viljum við öll að ungt og vel menntað fólk leiti hingað heim aftur eftir að hafa öðlast reynslu erlendis. En það er ekki neikvætt, virðulegur forseti, að ungt fólk hafi tækifæri til þess að fara til útlanda, kynnast því að starfa þar eða mennta sig þar og koma svo aftur heim með þá reynslu og þekkingu. Við hljótum að skilja að það hefur verið erfitt fyrir fólk að ráðast í slíkt eins og aðstæður voru hér fyrir nokkrum árum og í raun má segja að þetta sé til marks um að tækifæri ungs fólks á Íslandi hafi aukist.

Á sama tíma er líka rétt að hafa hugfast að fólki er ekki að fækka. Fólki fjölgar hér ár frá ári þó að að hluta til séu það útlendingar sem koma hér og vinna hin ýmsu störf, en meðal annars og ekki hvað síst á (Forseti hringir.) sviði rannsókna, vísinda, þróunar í háskólastarfi o.s.frv. Svoleiðis að allt lítur þetta nú til lengri tíma litið ljómandi vel út.