145. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2016.

fullnusta refsinga.

332. mál
[16:05]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svörin og sé ekki annað en við séum í rauninni sammála um að fullur vilji sé til þess að móta stefnu þar sem betrun væri skýrt markmið. Það þarfnast hins vegar meira samráðs og lengri yfirlegu en við í allsherjar- og menntamálanefnd getum í raun farið í, en það er mikilvægt að fara í þá átt.

Þá langar mig að koma inn á málefni sem ég held að ekki sé komið inn á, hvorki í nefndaráliti minni hluta né meiri hluta, en kannski óbeint varðandi samfélagsþjónustu ungra brotamanna. Það er sáttamiðlun eða sáttaumleitun. Það er þekkt dæmi um það, meðal annars frá Noregi, að sáttaumleitun og aðkoma sáttaráðs er liður í betrun ungra afbrotamanna. Ég velti fyrir mér hvaða sýn þingmaðurinn hefur á það úrræði sem betrun. Þingmaðurinn hefur þá sýn að rafræn afplánun ætti að vera dómstólaúrræði, en þá er spurning hvaða sýn hann hefur á sáttamiðlun. Á hún að vera úrræði sem dómstólar geta beitt eða vera eingöngu beitt utan dómstóla eða sem liður í betrun?