145. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2016.

fæðingar- og foreldraorlof.

25. mál
[18:09]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Mig langar til að grípa boltann frá hv. þm. Páli Val Björnssyni og þakka fyrir það frábæra samstarf sem við áttum í nefndinni um þetta mál.

Við höfðum nýlokið við að ræða önnur mál um fullnustu refsinga og þar var sama sagan. Nefndir eru að skila frá sér nefndarálitum, samhljóða nefndarálitum. Það er ágætt að draga þetta fram í ljósi umræðunnar sem oft er í samfélaginu að þingmenn eru oft sammála og þegar um svona sanngirnismál eins og þetta er að ræða viljum við að sjálfsögðu öll, og til þess erum við hérna, að reyna að bæta það sem hægt er að bæta og gera kerfið örlítið mannlegra og sanngjarnara vegna þess að auðvitað eru gloppur í því og verða alltaf. Það er okkar hlutverk að þróa kerfið okkar og bæta það.

Ég ætla ekki að fara neitt ítarlega í málið. Hv. þm. Páll Valur Björnsson er búinn að fara mjög vandlega yfir nefndarálitið og gera grein fyrir því um hvað þetta snýst, þ.e. að jafna rétt foreldra sem missa barn stuttu eftir fæðingu og þeirra sem missa eftir 22 vikna meðgöngu. Eins og þingmaðurinn nefndi voru umsagnir mjög jákvæðar en jafnframt kom fram í þeim að rétt væri að skoða fleiri þætti laga um fæðingar- og foreldraorlof. Ég tek undir það. Þetta er eitt af því sem við þurfum að laga, en það eru fleiri hlutir sem við þurfum að laga og við erum meðvituð um það og munum gera það.

Mig langar til að vekja sérstaka athygli á málsgreininni um fjölburafæðingar vegna þess að það var atriði sem fæst okkar höfðu kannski hugsað alveg til enda. Við tókum mikla umræðu um það í nefndinni og ég ætla að fá að lesa þessar setningar í nefndarálitinu, með leyfi forseta:

„Skilyrði ákvæðanna um að barn fæðist á lífi var gagnrýnt fyrir nefndinni. Bent var á að erfitt væri að takast samtímis á við að ala upp eitt barn og að jarða og syrgja annað. Rýmkaður réttur til fæðingarorlofs eða -styrks vegna fjölburafæðingar væri því mikils virði þótt annað eða eitt barnanna fæddist andvana.“

Nefndin leggur því til breytingar á frumvarpinu þannig að 1. mgr. 16. gr. og 1. mgr. 21. gr. laganna taki einnig til andvanafæðinga.

Við fórum mjög vandlega yfir málið í nefndinni og ég tel að við höfum gert okkar besta og vandað umfjöllun okkar. Ég vona og ég trúi því að þetta mál fái jákvæða meðferð hjá okkur þingmönnum í þingsal og fáist afgreitt og samþykkt sem allra fyrst.

Ég vil ítreka þakkir mínar til hv. þm. Páls Vals Björnssonar fyrir að hafa lagt vinnu í þetta mál og fylgt því eftir með glæsibrag. Vonandi á það eftir að koma mörgum til góða í framtíðinni þegar við höfum breytt þessum lögum.