145. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2016.

spilahallir.

51. mál
[19:47]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni hugleiðingarnar. Varðandi það að búa til umgjörð til að ná þessu upp á yfirborðið og meta umfangið og að með því höfum við tækifæri til að ná til þeirra sem eru í vanda vil ég segja að ef við ætlum að draga þá sem eiga í vanda nú þegar eða eru í áhættuhópi inn í spilahöllina í staðinn fyrir að þeir séu einhvers staðar annars staðar þá erum við aðeins að færa til vandann. Ég er ekki viss um að við kortleggjum hann eitthvað frekar inni í tiltekinni spilahöll.

Mér finnst það alls ekki ásættanleg nálgun að vilja setja upp eitthvert apparat sem getur orðið til þess að enn fleiri ánetjast, af því að það er yfirleitt glamúr og annað slíkt í kringum þetta, að það sé röksemdarfærsla fyrir því að við getum náð til fíkla.

Það er hægt að ná til fíkla með margs konar aðferðum. Það er þjóðþekkt eða þekkt um allan heim og við hljótum að geta nýtt okkur reynslu annarra þjóða í því samhengi, eins og í svo mörgu öðru.

Ég hlakka í sjálfu sér til að taka þátt í umræðu um málið í allsherjar- og menntamálanefnd og fá umsagnir um það. Þetta er viðamikið mál í afar mörgum greinum. Þetta er þykkur doðrantur sem er vert að fara í gegnum. Ég kem til með að hlusta á báðar hliðar. Það breytir því þó ekki að í grunninn er ég ekki samþykk frumvarpinu og tel að við eigum miklu frekar, eins og ég hef sagt áður, að reyna að ná til þeirra sem eiga nú þegar við þetta og að lagaumgjörðin nái utan um starfsemina eins og hún er í dag.