145. löggjafarþing — 87. fundur,  14. mars 2016.

staða mála í heilbrigðiskerfinu.

[15:17]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég vil fyrst minna hv. þingmann á að það sem samþykkt var vorið 2014 var einmitt ekki að nýr Landspítali yrði byggður við Hringbraut. Það var vissulega upphafleg tillaga, en ekki náðist samstaða um hana vegna þess að menn hafa ólíkar skoðanir á því hvort það sé skynsamleg nálgun. Þess vegna var ákveðið að sammælast frekar um að ráðast í nauðsynlegar endurbætur við Hringbrautina á meðan menn meta aðra kosti.

Hvað varðar stöðuna núna þá er alveg ljóst að það þarf að halda áfram að bæta í viðhald og viðbætur á Landspítalanum. Sú 1.250 millj. kr. viðbót sem hv. þingmaður nefndi var hins vegar viðbót við viðbótina sem þessi ríkisstjórn er að setja í heilbrigðismál. Ég efast reyndar um að jafnstórt stökk hafi verið tekið í seinni tíð og milli áranna 2015 og 2016 í aukinni áherslu á heilbrigðismál. Mér sýnist það verða 19 milljarða kr. aukning frá einu ári til annars.

Til að setja það í samhengi við annað mál sem hefur verið hv. þingmanni hugleikið þá er þetta helmingi meira, bara viðbótin í heilbrigðismálin, en kostnaður við búvörusamninga. Bara viðbótin frá einu ári til annars í heilbrigðismál er helmingi meira en allur kostnaður við búvörusamninga það árið. Það hlýtur að undirstrika forgangsröðun þessarar ríkisstjórnar sem hefur verið að bæta verulega í heilbrigðismál; hún ætlar að gera það áfram. En við gerum okkur grein fyrir því að það tekur tíma að vinna upp þann gríðarlega niðurskurð sem heilbrigðismálin máttu þola á síðasta kjörtímabili. Voru það ekki 30 milljarðar sem heildarniðurskurður til heilbrigðismála nam á síðasta kjörtímabili?

Núverandi ríkisstjórn hefur algjörlega breytt um kúrs og haldið áfram ár frá ári að efla heilbrigðisþjónustu á Íslandi.