145. löggjafarþing — 87. fundur,  14. mars 2016.

íslensk tunga í stafrænum heimi.

469. mál
[16:52]
Horfa

Jóhanna María Sigmundsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil koma hingað upp út af þessari fyrirspurn þar sem ég tel að það sé orðið mjög mikilvægt að við förum að huga að þessu. Í dag eru ung börn t.d. orðin færari í ensku við upphaf eða á fyrstu árum skólagöngu sinnar en foreldrar þeirra. Það er helst vegna þess að þau nota internetið meira, spila á því leiki, horfa þar á myndbönd, lesa ýmsar leiðbeiningar sem þau þurfa að fara eftir til að nota tækin. Auðvitað þjálfar það ákveðna færni og tungumálakunnáttu og þá kunnáttu að skipta á milli tungumála. En við verðum að passa að það glatist ekki eitthvað á móti og týnist niður hjá þeim. Ég er því mjög ánægð að heyra að ráðherrann gefur alla vega góð svör um næstu skref og einnig um tímann þangað til að verkefnið verður komið fyllilega af stað.