145. löggjafarþing — 87. fundur,  14. mars 2016.

skil sérfræðilækna á starfsemisupplýsingum.

579. mál
[18:16]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa umræðu og þá brýningu sem kemur fram í máli hv. þingmanna sem tóku þátt í henni. Ég tek undir þau sjónarmið sem komu fram hjá þeim báðum þess efnis að það sé ekki viðunandi og ekki líðandi að landlæknisembættið eigi ekki möguleika á að hafa upplýsingar um starfsemi þeirra þátta heilbrigðisþjónustunnar sem það kallar eftir.

Við hljótum öll í þessum sal að geta verið sammála um að það sé háttur sem við viljum ekki hafa á upplýsingaöflun embættis landlæknis með hinum ýmsu þáttum heilbrigðisþjónustunnar. Það verður að finna lausn á þessu karpi sem hefur staðið í alllangan tíma milli tiltekinna sérgreinahópa og embættis landlæknisins varðandi starfsemisupplýsingarnar, en það er alveg ljóst að þolinmæði yfirvalda í þessum efnum er ekki takmarkalaus.

Vegna frýjunarorða hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur, um eftirrekstur með þessari hugsun við embætti landlæknis, þá tek ég þeim frýjunarorðum fagnandi og sömuleiðis þeim orðum hv. málshefjanda Líneikar Önnu Sævarsdóttur að hún muni halda áfram að spyrja út í þessa hluti, því að aðhald í þessum efnum er einfaldlega hið besta mál.