145. löggjafarþing — 88. fundur,  15. mars 2016.

fjármálafyrirtæki.

589. mál
[15:06]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil aðeins fá tækifæri til að spyrja hæstv. ráðherra út í nokkur atriði hvað varðar þetta mál, sem nefndin mun að sjálfsögðu skoða vandlega og efnislega.

Það er kannski lítið atriði sem ég vildi spyrja út í núna. Á allmörgum stöðum í frumvarpinu eru fjárhæðir í evrum, til dæmis hvað skuli vera lágmarkshlutafé eða stofnframlög í verðbréfafyrirtækjum eða lánastofnunum. Í öllum tilfellum er miðað við að lágmark innborgaðs stofnframlags skuli vera jafnvirði 5 milljónum evra í íslenskum krónum o.s.frv. Þetta er á allmörgum stöðum í frumvarpinu og væntanlega er markmiðið að tryggja að einhvers konar samræmi sé á innri markaðnum, þessum sameiginlega markaði. Og það er sjónarmið út af fyrir sig.

En í ljósi þess hve evran hefur verið óstöðug og gengi hennar fallvalt — hún hefur misst 30% af kaupmætti sínum gagnvart dollara á mjög stuttum tíma. Ef við lítum í hina áttina, horfum til baka, hefði það aukist um 50%. Þetta eru miklar sveiflur fyrir þá sem þurfa að viðhalda eiginfjárkröfum eða inngreiddu hlutafé. Krónan hefur líka sveiflast mikið gagnvart evrunni þannig að þetta er ekki beinlínis gott viðmið fyrir okkur út frá sjónarmiðum um fjármálastöðugleika hér innanlands. Stofnanir eiga í sjálfu sér ekki viðskipti að meginstofni til í evrum heldur í krónum.

Við viljum standa vörð um fjármálalegan stöðugleika innan Íslands og það hlýtur að vera sjónarmið að gæta að einhvers konar samræmi og samkeppni á Evrópska efnahagssvæðinu. En það hlýtur að vera neðar í röðinni en að hér geti menn gengið að því vísu með einhverjum fyrirsjáanleika hver krafan er um hlutafé hér á Íslandi.

Það er óásættanlegt, finnst mér, að menn þurfi stöðugt að vera að fletta upp í einhverjum daggengistöflum til að kanna hvort þeir séu orðnir brotlegir við hin eða þessi ákvæði þessara nýju laga, sem mér líst bara mjög vel á flest, að öðru leyti en þessu.