145. löggjafarþing — 89. fundur,  16. mars 2016.

störf þingsins.

[15:29]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Mig langaði að gera hér að umtalsefni svar fjármálaráðherra við spurningu Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttur. Ég þakka Bjarkeyju kærlega fyrir spurninguna sem var um laun lögreglumanna. Svarið sýnir að laun lögreglumanna á árinu 2014 eru að mig minnir þau sömu og þau voru árið 2002. Þarna komum við inn á hvaða áhrif það getur haft ef heildarlaunin eru ekki sem næst grunnlaununum, hvaða áhrif það getur haft þegar samdráttur og niðurskurður hefst í einhverri grein. Þá fer öll yfirvinna og vaktaálag, og í þessu tilfelli vopnaálag, niður. Ég held að mun minna sé greitt fyrir vopnaálag í lögreglunni í dag þótt nú sé algengara að lögreglan þurfi að vopnast.

Á sama tíma og verkefnin eru að verða meira krefjandi og þeim fjölgar þá lækka launin. Starfsmönnunum hefur verið að fækka eða fjöldinn hefur staðið í stað. Það er ekki góð þróun. Sú þróun er vegna þess að lögreglumenn misstu verkfallsrétt sinn, eins og kemur fram í spurningunni. Í staðinn fengu þeir viss úrræði sem áttu að tryggja að laun þeirra mundu þróast á við aðrar starfsstéttir.

En frá því að verkfallsrétturinn fór hefur hið opinbera aldrei viljað virða þá leið sem kom í staðinn. Þá verður þetta niðurstaðan. Nú er mjög mikilvægt hvort sem það verður í formi verkfallsréttar eða hvort fundin verður einhver leið til þess að ákvarða laun lögreglumanna. Það verður að gera það þannig að ríkið sé skuldbundið til að fara eftir þeirri leið en ekki vera alltaf með það í þykjustunni í kjarasamningnum og svo eru fundin öll klækjabrögð til þess að virða það að vettugi.


Tengd mál