145. löggjafarþing — 89. fundur,  16. mars 2016.

hagsmunatengsl forsætisráðherra.

[15:44]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Það kemur kannski ekkert á óvart úr hvaða ranni hún kemur sú umræða sem hér er. Þetta er að einhverju leyti ástæðan fyrir því, held ég, að Alþingi mælist með lítið traust. Það er það skítkast sem þessir ágætu þingmenn, sumir hverjir sem hér hafa talað, hafa stundað árum saman úr þessum ræðustól, með því að tala niður Alþingi og draga inn í umræður í ræðustól hluti sem koma í sjálfu sér því sem við erum að gera ekkert við. Það er mjög, mjög merkilegt, ég verð að segja það.

Hér blanda menn saman atriðum sem hafa verið skýrð af eiginkonu forsætisráðherra, hver hennar fjármál voru. Þegar hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon vitnar hér í ákveðna hluti þá voru það hennar fjármunir sem áttu í hlut eins og ég hef skilið málið, ekki fjármunir forsætisráðherra. Þau eru gift í dag, vissulega. En að fara í þennan skítaleiðangur sem hv. þingmenn Vinstri grænna virðast leiða hér er algerlega sorglegt og það er það sem er að gera út af við traust á Alþingi.

— Það er greinilegt hver er kominn inn á þing.