145. löggjafarþing — 89. fundur,  16. mars 2016.

kynslóðareikningar.

613. mál
[16:19]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Víða um lönd er staða ungs fólks vaxandi áhyggjuefni. Nýverið hafa birst úttektir í alþjóðlegum tímaritum um stöðu ungs fólks í mörgum nágrannalanda okkar, fólks sem fætt er á árabilinu 1980–1995, sem leiða í ljós að í þeim löndum búi þessi kynslóð við lakari kjör, lakari laun, verra atvinnuástand og dýrari húsnæðismarkað en kynslóðirnar á undan henni. Við í þingflokki Samfylkingarinnar teljum þess vegna mikilvægt að við förum yfir þessa stöðu í okkar samfélagi. Við vitum sem er að húsnæðismarkaðurinn er ungu fólki erfiður nú um stundir en við þurfum líka að skoða hina þættina, tekjur þess og aðra stöðu.

Þess vegna höfum við lagt fram þessa skýrslubeiðni, til að fá sambærilegar upplýsingar fyrir Ísland eins og hafa verið í alþjóðlegri umræðu um stöðu ungu kynslóðarinnar. Ég (Forseti hringir.) vonast til þess að við getum notað niðurstöður skýrslunnar til að byggja á úrbætur fyrir unga fólkið í landinu í framhaldinu.