145. löggjafarþing — 90. fundur,  17. mars 2016.

Seðlabanki Íslands.

420. mál
[11:22]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þinginu fyrir ágætt samstarf um breytingar á þessu máli.

Ég vil rifja það upp að málið var lagt fram í þeim búningi sem það var upphaflega gert í kjölfar þess að Alþingi kallaði eftir því síðastliðið sumar við lagasetningu sem þá var ákveðin að þessum eignum yrði komið inn í félag sem væri undir Seðlabankanum.

Nú erum við að leggja upp með að félagið verði ekki undir Seðlabankanum heldur undir fjármála- og efnahagsráðuneytinu og ég tel að við höfum fundið ágætisfyrirkomulag á það.

Vegna þeirra orða sem hér eru höfð uppi um að hér sé á ferðinni gríðarleg einkavæðing þá verð ég að minna á að hún byrjar öll á mikilli ríkisvæðingu, ekki satt? Hún byrjar á gríðarlegri ríkisvæðingu og í heildina eru stöðugleikaframlögin líklega mesta ríkisvæðing Íslandssögunnar ef menn vilja nálgast málið út frá einhverri svona hugtakanotkun.

Við höfum verið sammála um það að mikilvægt sé að nýta þessar eignir til þess að greiða upp skuldir, nýta til góðra verka, og það er bundið í lög. Félaginu verður gert að fylgja eftir vilja Alþingis í hvívetna.