145. löggjafarþing — 91. fundur,  18. mars 2016.

störf þingsins.

[10:59]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Mig langar til að byrja á að taka undir með hv. þm. Brynhildi Pétursdóttur um það að við þurfum að vera mjög meðvituð í neyslu. Það að vera meðvituð í neyslu snýst ekki bara um fjármálalæsi eða það að skilja hversu mikið hlutirnir kosta, heldur líka hvernig þeir eru gerðir og hvaðan þeir koma.

Mig langar að tala aðeins um það hversu dýrt er í raun og veru að búa á Íslandi. Á Stundinni er grein þar sem nemendur í þjóðhagfræði, á Bifröst minnir mig, gerðu samanburð á Þýskalandi og Íslandi þegar kom að því að búa og bara lifa. Það kom í ljós, engum til undrunar, að það er margfalt dýrara að búa á Íslandi. (Gripið fram í: Bjórinn.) Já, það er náttúrlega bjórinn. Hér kemur sérstaklega fram að Chianti-flaska kostar 1.590 kr. í ríkinu en hún kostar 500 kr. í matvörubúð í Þýskalandi þannig að það má algjörlega taka fram. Hins vegar hef ég áhyggjur af þessu, sérstaklega af því að þær bætur sem fólk lifir á eða jafnvel námslán eru ekki til þess fallin að fólk geti framfleytt sér.

Sem stúdent þurfti ég að flytja af landi brott til þess að hafa efni á að lifa og það er nokkuð sem fleiri stúdentar og fólk á eftirlaunum þarf að standa frammi fyrir, það er allt of dýrt að búa á Íslandi. Og það er vandamál.