145. löggjafarþing — 91. fundur,  18. mars 2016.

dómstólar.

615. mál
[11:47]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að ég átta mig ekki alveg á fyrri spurningu hv. þingmanns, mér fannst eins og hann væri líka að ræða það frumvarp sem nú er í kynningu á vef ráðuneytisins og fjallar um hugsanlegar breytingar á reglum um skipan dómara til framtíðar. Þar eru hugmyndir uppi um að fleiri aðilar komi að þeirri dómnefnd sem um er fjallað og líka að dómnefndin skýri hverjir eru hæfastir, en ákveðið svigrúm sé fyrir ráðherra til að velja af þeim sem hæfastir eru, að því gefnu að þeir séu allir hæfir. Það er grundvallaratriði.

Í þessu frumvarpi er sérstaklega tekið á skipun allra þessara millidómara, ef ég má orða það þannig, í Landsrétti. Þá er aðalvarnaglinn sá, sem er mjög mikilvægur fyrir ráðherra á hverjum tíma, að þegar til stendur að skipa þennan mikla fjölda dómara sé það ekki á hendi framkvæmdarvaldsins að skipa þá alla á grundvelli reglna sem til framtíðar munu gilda, heldur verði Alþingi að koma að því. Telji Alþingi að ráðherra hafi lagt til einhvern sem ekki er ásættanlegur eða Alþingi fellir sig ekki við, þarf ráðherrann að tilnefna annan hæfan. Það er ekki þannig að þá geti bara einhver komið til, það verður að koma annar hæfur sem ráðherra leggur til við Alþingi til samþykktar þannig að tryggt sé, sem ég held að sé algjört grundvallaratriði þegar verið er að skipa svona mikinn fjölda í einu, að það sé ekki látið hvíla á einum ráðherra.

Varðandi seinni spurninguna, um endurupptökunefnd, þá er að koma sérstakt frumvarp um það. Þar er gert ráð fyrir því að endurupptökunefndin geti ekki vikið frá dómi Hæstaréttar eins og gerðist í þessu tiltekna máli. En það sem við erum að glíma við er auðvitað að í nefndinni eru mál til meðferðar sem ekki skal raska.