145. löggjafarþing — 91. fundur,  18. mars 2016.

menningarminjar o.fl.

606. mál
[14:36]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég verð að taka undir þetta. Ég er því miður ekkert sérstaklega vongóður um að það takist að fá einhverja umræðu um þetta mál í þingsal áður en þinghlé verður gert í tvær vikur. Ég vil því gagnrýna stjórn þingsins og lýsa vonbrigðum mínum með stjórn þingsins í þessu máli. Það er einstaklega bagalegt í ljósi þess að í vikunni vorum við að samþykkja siðareglur alþingismanna. Við förum nú í þinghlé yfir páskana með mjög aðkallandi spurningar tengdar þessum siðareglum. Hvað þýða þær? Hvað merkja þær? Það stendur svo skýrt í reglunum að þingmenn eiga að greina frá fjölskylduhagsmunum sínum og hvernig þau koma málum við. Það á að gera. Hér erum við með æpandi dæmi um að það var ekki gert. (Forseti hringir.) Og það sem meira er, við erum með mjög afgerandi viðbragð hér sem við þurfum að melta, það er frá hæstv. forseta Alþingis þar sem hann hafnar því algjörlega að það sé við hæfi að ræða þessi mál. Þá skil ég ekki siðareglurnar.